Skuldbindingar Íslands

Kyótó-bókunin

Fyrsta skuldbindingatímabilið 2008-2012 (CP1)

Uppgjöri á losunarheimildum fyrir fyrsta viðskiptatímabil Kýótó-bókunarinnar, sem fyrir árin 2008– 2012 lauk í upphafi árs 2016. Ísland stóð við skuldbindingar sínar á tímabilinu. Á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar frá 2008 til 2012 námu losunarheimildir Íslands tæplega 18.524 kt CO2-ígilda. Samkvæmt sérstakri ákvörðun Loftslagssamningsins (oft nefnd „íslenska ákvæðið“) er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum.

 

Heildarlosun Íslands á tímabilinu rúmlega 23.356 kt. CO2-íg. Ísland gerði upp tæplega 20.099 þúsund losunarheimildir og rúmlega 3.257 þúsund voru tilkynntar sérstaklega undir íslenska ákvæðinu. Upplýsingar um uppgjör Íslands sem og annarra ríkja má finna áheimasíðu Loftslagssamningsins

 

Annað skuldbindingatímabilið 2013-2020 (CP2)

Samkvæmt Doha-breytingunni (samþykkt af Íslandi 7. október 2015) skal Ísland ekki losa meira en 80% af 1990 losun sinni árið 2020 til að uppfylla skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (2013-2020). Skuldbindingar Kýótóbókunarinnar ná ekki til losunar frá alþjóðaflugi né losunar frá landnotkun, breyttri landnotkun eða skógrækt (LULUCF), þó svo að gerð sé grein fyrir þeirri losun í losunarbókhaldi Íslands. Aðildaríki geta þó talið sér bindingu kolefnis vegna LULUCF til tekna að einhverju leyti.

Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliðasamning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015). Þar segir að Ísland skuli tryggja að:

  …öll samanlögð losun þess af mannavöldum á öðru skuldbindingartímabilinu í koltvísýringsígildum á gróðurhúsalofttegundum, sem tilgreindar eru í viðauka A við Kýótóbókunina, frá upptökum og viðtökum sem falla undir Kýótóbókunina en falla ekki undir gildissvið tilskipunarinnar um viðskiptakerfi fyrir losunarheimildir fari ekki yfir úthlutað magn sem sett er fram í skilmálunum um sameiginlegu efndirnar.

Samkvæmt samningi Íslands og ESB um sameiginlegar efndir hefur Ísland fengið úthlutað 15.327.217 heimildir[1] (AAU) sem jafngildir losun á rúmlega 15.327 kt. af CO2-íg. á tímabilinu 2013-2020 utan viðskiptakerfis ESB. Auk AAU heimilda hefur Ísland heimild til að nota bindingareiningar (RMU) í samræmi við. 3.gr. 3. og 4. mgr. Kýótóbókunarinnar. Á árunum 2013-2017 var losun sem fellur undir skuldbindingar Íslands, án viðskiptakerfis ESB, 14.257 kt CO2-ígildi og bindingareiningar 2.254 kt CO2-ígildi. Ísland er því búið að nota 78% af úthlutuðum heimildum sínum (12.004 þúsund heimildir) og á því 3.323 þúsund úthlutaðar heimildir eftir fyrir árin 2018-2020. Nánar um bindingareiningar á öðru tímabili Kyótó bókunarinnar má sjá undir „Landnotkun“ flipanum. 

Frekari upplýsingar um Kýótó-bókunina má finnahér.

Parísarsáttmálinn

Þann 4. nóvember 2016 gekk Parísarsáttmálinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í gildi á heimsvísu. Samningurinn var samþykktur í París 12. desember 2015 og undirritaður af Íslandi 22. apríl 2016, fullgilltur af Alþingi 19. september 2016.

Parísarsáttmálinn er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC). Markmið samningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar, en jafnframt skuli leitast við að halda hækkuninni undir 1,5°C. Að auki miðar samningurinn að því að efla getu ríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun og stuðningi þróaðra ríkja við þróunarríki og viðkvæmari lönd.

Samkvæmt sáttmálanum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svonefnd landsákvörðuð framlög (Nationally Determined Contributions – NDC´s). Sáttmálinn setur lagalegan ramma utan um skuldbindingar ríkjanna og nær til aðgerða eftir árið 2020, en þá lýkur tímabili skuldbindinga ríkja í Kýóto-bókuninni. Ísland skilaði upplýsingum um sín landsákvörðuðu framlög Íslands til Loftslagssamningsins 30. júní 2015, þar sem stefnt er að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildaríki ESB og Noreg.

 

Sameiginleg markmið með ESB og Noregi

Framkvæmdastjórn ESB birti í Maí 2018 reglugerð um bindandi árlegan samdrátt aðildaríkjanna á losun gróðurhúsalofttegunda á árunum 2021 til 2030[2] og er hluti af regluverki ESB sem innleiðir skuldbindingar ESB samkvæmt Parísarsamningnum. Regluverkið nær ekki til losunar frá flugstarfsemi þar sem Parísarsamningurinn tekur ekki til losunar frá alþjóðlegri flugstarfsemi. Stefnt er að því að takmarka losun frá flugstarfsemi með tilkomu alþjóðasamkomulags Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO)

Markmið ESB er að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðaða við 1990, með því að draga úr losun um;

  • 43% árið 2030 frá iðnaði er fellur undir viðskiptakerfi ESB , miðað við losun árið 2005.
  • 30% árið 2030 frá uppsprettum sem ekki falla undir gildissvið viðskiptakerfis ESB, miðað við árið 2005.

 

Íslandi og Noregur stefna á að vera með ESB ríkjunum í sameiginlegu markmiði gagnvart Parísarsáttmálanum. Eins og er eru samningaviðræður í gangi um hvernig innleiða skuli reglugerð um sameiginlega markmiðið inn í EES samninginn, og mun þeim viðræðum líklega ljúka í lok árs 2019. Sett hefur verið fram tillaga í þeim samningaviðræðum að Ísland muni dragar úr losun sem fellur ekki undir ETS um 29% árið 2030 miðað við 2005. Hlutfall annara aðildaríkja ESB í markmiðum um 30% minni losun fyrir sambandið í heild sinni árið 2030, miðað við 2005, má sjá hér.

 

Annað skuldbindingatímabilið 2013-2020 (CP2): Skipting losunar.

 

Árið 2017 féll 39 % af losun Íslands (án LULUCF) undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Nánar um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og hvernig losun Íslands skiptist milli viðskiptakerfisins og annarrar losunar má sjá hér.

 

Sameiginlegar efndir

Losunin sem fellur ekki undir viðskiptakerfi ESB hefur dregist saman um 5% síðan 2005. Losunin var mest árið 2007 og dróst svo saman í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Síðan 2012 hefur losun Íslands verið nokkuð stöðug þar sem aukin losun vegna vaxandi ferðamannastraums og aukningu hagvaxtar hefur jafnast út með aukinni viðleitni við að draga úr losun. Helstu uppsprettur losunar á gróðurhúsalofttegundum sem falla ekki undir viðskiptakerfi ESB eru í orkugeiranum (vegasamgöngum og fiskiskipum), og í landbúnaðinum (iðragerjun, nytjajarðvegi og meðhöndlun húsdýraáburðar). Nánari upplýsingar um losun frá mismunandi flokkum má finna hér.

 

Það er næsta víst að skuldbindingar Íslands og Noregs munu fara í stórum dráttum eftir þeim reglum og viðmiðum sem er að finna í tillögum ESB. Ísland hefur samið við ESB  um að draga úr losun í þeim flokkum sem falla undir skuldbindingar Íslands um 29% árið 2030 miðað við árið 2005.