Innflutningsleiðir

Innflutningur tegunda á ný svæði getur átt sér stað með ýmsum hætti, ýmist vísvitandi eða fyrir slysni. Þegar tegundir eru fluttar inn vísvitandi hefur tilgangur innflutningsins í gegnum tíðina verið æði mismunandi, allt frá því að innfluttu tegundirnar séu notaðar til skrauts í görðum fólks, nýttar í landgræðslu og í landbúnaði, til þess að dýr eru flutt inn og sleppt í þeim tilgangi að vera fæða fyrir önnur dýr eða til að éta önnur dýr. Tegundir hafa einnig verið fluttar inn í því skyni að endurheimta glötuð vistkerfi eða til að hægt sé að stunda sportveiði á þeim.

Eftirfarandi flutningsleiðir af mannavöldum eru dæmi um algengar innflutningsleiðir framandi lífvera:

Plöntur

Mikið er flutt af plöntum til landsins og ná sumar þeirra útbreiðslu í íslenskri náttúru. Með moldinni eru líka flutt inn heilu vistkerfin sem valda skaða og breytingum á íslenskri náttúru. Dæmi um framandi ágenga tegund sem borist hefur með plöntum er spánarsnigillinn (Arion vulgaris)

 

Fiskabúr og gæludýr

Framandi tegundir geta borist með gæludýrum og skrautfiskum. Dæmi um framandi ágenga tegund sem borist hefur til Íslands er búrabobbi, ferskvatnssnigill sem barst í náttúruna úr fiskabúrum.

 

Landbúnaður og skógrækt

Flutningur plöntutegunda sem nýttar eru í landbúnaði, skógrækt eða landgræðslu ná sumar fljótt fótfestu og mikilli útbreiðslu. Dæmi um það er lúpínan (Lupinus nootkatensis).

 

Viður og viðarafurðir

Ýmis dýr geta borist með við og viðarafurðum, en hættan er mest ef viðurinn er enn með berki.

 

Veiði

Örverur og snýkjudýr geta borist með veiðibúnaði, vöðlum og fatnaði sem ekki hefur verið þrifinn eða sótthreinsaður.

 

Ferðamenn

Ferðlög milli landa auka líkur á útbreiðslu framandi lífvera. Þekkt dæmi um framandi ágenga tegund sem borist hefur til landsins er mosategundin hæruburst (Campylopus introflexus), sem getur borist með skósólum.

 

Vöruflutningar

Aukin milliríkjaverslun eykur líkur á flutningi lífvera milli svæða þar sem þær geta m.a. tekið sér far með gámum. Dæmi um framandi tegund sem hefur náð fótfestu á Íslandi er húsamús (Mus musculus), en hún er talin hafa komið til landsins á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

 

Skip

Margar framandi lífverur berast milli landa með kjölfestuvatni skipa. Dæmi um framandi ágenga tegund sem hefur náð fótfestu í hafinu við Ísland er grjótkrabbi (Cancer irroratus).

 

Úrgangur

Flutningur úrgangs og moltu milli svæða getur stuðlað að útbreiðslu framandi tegunda, þá aðalega plantna og skordýa.