Hlið, Álftanesi

Hlið á Álftanesi var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Árið 2020 var fólkvangurinn stækkaður og friðlýsingaskilmálar endurskoðaðir.

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota og að vernda fuglalíf, búsvæði fugla og líffræðilega fjölbreytni svæðisins. Miðar verndunin að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúrunni, svæðis til útivistar, náttúruskoðunar og til fræðslu. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar.

Aðgengi að svæðinu er gott og er það hluti af lífríku svæði og því ákjósanlegt til útikennslu. Innan svæðisins eru m.a. margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra sem eru ábyrgðartegundir á Íslandi og eru þær skráðar á viðauka II og III við Bernarsamninginn. Á svæðinu er einnig auðugt botndýralíf á grunnsvæði og lífríkar þangfjörur. Jafnframt eru friðlýstar menningarminjar (Skjónaleiði) innan fólkvangsins.

Stærð fólkvangsins er 41 ha.

    Nú verðum við náttúru landsins að liði
    um ljómandi vordag í sjávarins niði.
    Nú látum við seli og fugla í friði
    og fólkvanginn stækkum hér úti í Hliði. 
             Arinbjörn Vilhjálmsson, júní 2020
.