Umsókn um innflutningsleyfi

 

Óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Þetta gildir þó ekki um búfé eða framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar nema innflutningur sé bannað samkvæmt reglugerð.

Til að sækja um innflutningsleyfi fyrir framandi lífveru skal fylla út umsókn á þjónustugátt Umhverfisstofnunar. Með umsókn um innflutningsleyfi skal fylgja áhættumat (sjá leiðbeiningar um áhættumat hér að neðan) sem umsækjandi hefur aflað og skal þar m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Ef lífverurnar eru fluttar til landsins í því augnamiði að dreifa þeim skal umsóknin taka bæði til innflutnings og dreifingar og skal þá einnig fylgja greinargerð um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að dreifingin hafi á lífríkið.

Umhverfisstofnun innheimtir gjald vegna vinnslu og afgreiðslu umsóknar um leyfi til að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum. Gjaldið er 98.900 gr sbr. 24. gr. c. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar með síðari breytingum. Hafi vinnsla og útgáfa leyfis í för með sé meiri kostnað fyrir Umhverfisstofnun en sem nemur gjaldi skv. 2. mgr. er heimilt að innheimta tímagjald fyrir slíka umframvinnu. Þegar ljóst er að útgáfa leyfis hefur í för með sér umframvinnu skal umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skal gefinn út þegar ákvörðun um útgáfu leyfis liggur fyrir.

Þegar umsókn um innflutningsleyfi fyrir lifandi framandi lífveru berst Umhverfisstofnun skal stofnunin skv. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd leita umsagnar sérfræðinganefndar um framandi lífverur. Umsóknir eru ekki sendar til umsagnar fyrr en umsóknargjald hefur verið greitt.

Fylgigögn með umsóknum

Áhættumat skal ávallt fylgja umsóknum sbr. 2. mgr. 63. gr. náttúruverndarlaga. Umsækjanda er jafnframt heimilt að senda öll önnur viðeigandi gögn með umsókninni, svo sem heilbrigðisvottorð, upprunavottorð eða önnur gögn sem hjálpa við mat á því hvort að innflutningur eða dreifing lífverunnar sé til þess fallinn að ógna eða hafa veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.

Innflutningsleyfi á grundvelli annarra laga

Vakin er athygli á því að þegar fluttar eru inn framandi lífverur er í sumum tilfellum nauðsynlegt að afla tvenns konar leyfis vegna innflutnings dýra og plantna. Þannig veitir sá ráðherra sem fer með lög nr. 54/1990 um innflutning dýra undanþágur frá innflutningsbanni 2. gr. þeirra laga og yfirdýralæknir getur vikið frá innflutningsbanni laganna og leyfi innflutning á gæludýrum og erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir. Séu þessar tegundir framandi þarf jafnframt leyfi Umhverfisstofnunar til innflutningsins. Nánar upplýsingar um hvaða tegundir teljast framandi lífverur má nálgast hér.

Um sérfræðinganefnd um framandi lífverur

Ráðherra skipar til fjögurra ára í  senn sex manna nefnd sérfræðinga sem skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um innflutning og ræktun framandi tegunda og dreifingu lifandi lífvera. Náttúrufræðistofnun Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Líf- og umhverfisvísindastofnunn Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun tilnefna einn fulltrúa hver og Skógræktin og Landgræðslan tilefna sameiginlega einn fulltrúa.

Kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að ákvarðanir eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sbr. 91. gr. laga um náttúruvernd. Um aðild, kærufrest, málsferð og annað sem varðar kæruna fer samvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.