Dynjandi í Arnarfirði

Af hverju friðlýsing?

Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá ásamt umhverfi þeirra var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda fossastigann í ánni sem hefur orðið til vegna lagskiptingar bergsins í hraunlög og lausari millilög. Einnig að auðvelda almenningi umgengni og kynni af náttúru svæðisins.

Tengt efni

Staðsetning

Dynjandi er í botni Arnarfjarðar innan landamerkja Ísafjarðabæjar.  Mörk Náttúruvættisins eru frá odda Meðalness upp í fjallseggjar og með fjallsbrúnum umhverfis voginn og Dynjandisdal allt að mörkum jarðarinnar Dynjanda í Urðarhlíð og með þeim til sjávar.
Stærð náttúruvættisins er 644,9 ha.

Aðgengi

Náttúruvættið er í Arnarfirði við þjóðveg 60 um 30 km norðan friðlandsins í Vatnsfirði. Við Dynjanda er bílastæði, áningasvæði og salernisaðstaða. Göngustígur liggur frá bílastæði, meðfram Dynjandisá að fossinum Dynjanda og tekur gangan um 15 mínútur.

Jarðvegur er grunnur og laus í sér sem gerir það að verkum að gróðurinn er mjög viðkvæmur fyrir traðki. Öllum er heimil för um svæðið enda sé gengið á merktum gönguleiðum, gróðri hlíft og góðrar umgengni gætt.

 

Hvað er áhugavert?

Náttúruminjar

Jarðfræði

Vestfjarðakjálkinn varð til í mörgum hraungosum á tertíertíma (fyrir um 14 – 16 milljónum ára). Goslög af blágrýti og hraungjalli hlóðust hvert ofan á annað og mynduðu hásléttu. Ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og hafði framskrið jökulsins þá grópað djúpa firði í hásléttuna og sorfið niður mishörð millilögin. Eftir stóðu hörð blágrýtislög sem bera uppi fossastiga Dynjanda. Hálendi Glámu og Dynjandisheiðar var hulið jökli þar til fyrir rúmlega 100 árum og þaðan fellur nú vatn úr Eyjavatni til sjávar um Dynjandisá. 

Fossar

Dynjandi og Hæstahjallafoss.

Óvíða er vatnsniður meiri en við Dynjanda. Ómur af drununum berst langar leiðir og ber fossinn því nafn með rentu. Fossinn hefur stundum verið kallaður Fjallfoss en það mun vera rangnefni og má rekja til sóknarlýsingar Rafnseyrarkirkjusóknar frá árinu 1839. Þar segir að bærinn Dynjandi taki nafn af „stórum fjallfossi árinnar sem rennur hjá bænum“ og er þá eflaust átt við að hann steypist ofan af fjallsbrún. Sérstaða Dynjanda er helst fólgin í því hve formfagur fossinn er þar sem hann fellur af brún niður eftir hörðu blágrýtislagi, 99 m hár, 30 m breiður efst en breiðir úr sér í 60 m breidd neðst. Áin liðast svo áfram niður sjö fossa sem eru hverjum öðrum fegurri uns hún nær um skamman veg til sjávar í Dynjandisvogi. Fossarnir nefnast (talið að ofan): Dynjandi, Hæstahjallafoss (Úðafoss), Strompgljúfrafoss (Strompur), Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss, Kvíslarfoss, Hundafoss og Bæjarfoss. 

Gróður

Gróðurfar á svæðinu einkennist af lyngbrekkum og graslendi. Flatlendið er að mestu gömul tún og graslendi en í brekkunum má finna lyng neðst og mosa, fjalldrapa og birki eftir því sem ofar dregur. Austan árinnar er birki mest áberandi en reyniviður stendur upp úr kjarrinu á stöku stað. Á svæðinu finnast sjaldgæfar tegundir á landsvísu svo sem sóldögg og þríhyrnuburkni. 

 

Dýralíf

Fjölbreytt fuglalíf er í Dynjandisvogi og þar hafa verið skráðar 35 tegundir fugla. Líflegast er um að litast á vorin þegar farfuglar koma til landsins og síðsumars þegar þeir hópa sig saman áður en lagt er í langferð á vetrarstöðvar. Algengur fargestur vor og haust er rauðbrystingur en hann hefur vetursetu í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku en verpir á Grænlandi og í Kanada. Algengt er að sjá straumönd við ósa Dynjandisár og þegar líða tekur á sumarið má sjá hana á sundi upp með ánni. Landselir sjást oft baða sig í sólinni við ósa Svínár á útfiri. 

Menningaminjar

Jörðin Dynjandi er í botni Dynjandisvogs í Arnarfirði. Fyrstu heimildir um Dynjanda eru frá miðöldum en fram á 17. öld var hún oftast í eigu ríkra einstaklinga sem búsettir voru utan Arnarfjarðar. Hún var t.a.m. í eigu Guðmundar „ríka“ Arasonar á Reykhólum á 15. öld en hann átti 140 jarðir á Vestfjörðum þegar best lét. Jörðin var að fornu mati 18 hundruðir en árið 1847 var hún svo metin og var þá meðtalin eyðijörðin Búðavík sem var hjáleiga frá Dynjanda og talin hafa farið í eyði fyrir árið 1650. Á Dynjanda var gott beitarland og var skógurinn nytjaður til beitar, hrís- og eldiviðartöku ásamt því sem kolabrennsla fór fram.

Bæjarstæðið var á miðjum svokölluðum Bæjarhól. Dý var fyrir neðan hólinn, nefnt Skolladý, sennilega til að hræða börn frá því. Í hlíðinni voru útihús sem enn sjást ummerki um.  Skriður áttu til að falla á beitarlönd og eins gat Dynjandisá flætt yfir bakka sína og spillt engjum og túnum. Bændur á Dynjanda hlóðu því flóðvarnargarð og má sjá leifar hans á árbakkanum ofan brúar. Á hjalla ofan við bæinn er hlaðin lítil þríhyrnd laug sem hugsanlega var notuð til þvotta og/eða böðunar af heimilisfólki. Sumarið 1887 mældist hitinn í lauginni 26,5° C en hafði lækkað niður í 23,5° C árið 1996. 

Einna kunnastur fyrri ábúenda á Dynjanda er Símon Sigurðarson er ættaður var úr Eyjafirði. Hann stóð fyrir búi á Dynjanda á árunum 1824-1858. Símon var mikill sjósóknari og þótti afburðafær skutlari við sela- og hvalveiðar. Sagt er að Símon hafi eitt sinn verið staddur við messugjörð á Hrafnseyri. Þar sem hann stóð á hlaðinu við gamla bæinn sá hann hvar maður gekk með háan kollhatt fyrir neðan kirkjugarðinn. Greip hann þá að gamni sínu broddstaf sem þar var og skutlaði svo hattinn tók af höfði mannsins án þess að skaða hann, eina 25-30 m. Á fyrrihluta 19. aldar sigldi Símon skipum til Danmerkur um nokkurra ára skeið og var brautryðjandi í þeim efnum.  Markús Bjarnason, fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, var sonarsonur Símonar en margir afkomenda hans urðu afburða sjómenn og nafnkenndir skipstjórar. 

Jörðin Dynjandi var í ábúð til ársins 1951. Þá féll niður föst búseta á staðnum er síðustu ábúendurnir, Guðmundur Jóhannsson og Guðrún Sigríður Guðjónsdóttir, fluttu til Bíldudals. Þau nytjuðu jörðina þó áfram fram á sjöunda áratuginn.

Styrkleikar

 Dynjandi er einn fjölsóttasti ferðamannastaður á Vestfjörðum og þangað koma að meðaltali um 800 ferðamenn daglega á háönn skv. talningum. Sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Patreksfirði fer með umsjón svæðisins en auk þess eru landverðir starfandi yfir sumartímann og fara þeir með eftirlit á svæðinu. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar hafa og unnið við lagfæringar á göngustígum við Dynjandisá öll sumur frá árinu 2011. Frá 2014 - 2016 var Dynjandi á appelsínugulum lista sem friðlýst svæði í hættu vegna álags af gestakomum en með auknu fjármagni og fylgjandi innviðauppbyggingu síðustu ára hefur þeirri þróun verið snúið við. Meðal nýrra innviða má telja stækkun á bílastæði, lagfæringar á göngustígum og tröppum, útsýnispalla og ný þjónustuhús sem áætlað er verði opnuð á haustmánuðum 2019. Vorið 2020 er áætlað að lokið verði við að lagfæra aðgengi hreyfihamlaðra að Hrísvaðsfossi með hellulögn á stíg og komið verður fyrir hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla á bílastæði. Enn fremur á eftir að setja upp þrjá af fimm útsýnispöllum sem hannaðir hafa verið við fossana. Dynjandi er gott dæmi um svæði þar sem vel hefur tekist til við uppbyggingu innviða en það skilar sér í aukinni vernd og verðmæti svæðis. 

Veikleikar

Dynjandisheiði er ekki haldið opinni yfir vetrartímann og stjórnast álag þann hluta ársins því nokkuð af tíð. Með yfirstandandi og fyrirhuguðum samgöngubótum í nágrenninu er ljóst að Dynjandi verður heilsársáfangastaður ferðamanna innan nokkurra ára. Innviðir hafa verið styrktir og landvarsla aukin árin 2017-2019 og mikilvægt er að ekki sé dregið úr henni.  Nauðsynlegt er að stækka hið friðlýsta svæði svo það nái yfir allt vatnasvið Dynjanda og verndun fossanna sé tryggð til frambúðar. Óheimil næturdvöl er algeng á svæðinu þrátt fyrir skilti og leiðbeiningar en tjaldstæði var aflagt við Dynjanda árið 2015 þegar Ísafjarðarbær hætti þeim rekstri. Ljúka þarf við þær framkvæmdir sem áætlaðar eru og uppfæra þarf friðlýsingarskilmála og stjórnunar- og verndaráætlun. Stígar og tröppur meðfram ofanverðri Dynjandisá þarfnast stöðugs viðhalds og líklegt er að stærra átak þurfi að koma til innan fárra ára. Inni í komutölum fyrir Dynjanda eru ekki tölur yfir gesti sem koma að landi í Dynjandisvogi frá smærri skemmtiferðaskipum sem þar kasta akkerum en sú aðkoma að hinu friðlýsta verður æ algengari. Nauðsynlegt er að rannsaka áhrif þeirrar umferðar á fugla- og dýralíf í fjörunni og bregðast við ef nauðsyn þykir. 

 

Ógnir 

  • Gróður á svæðinu er viðkvæmur 
  • Aukning í gestakomum
  • Nýjir villustígar myndast stöðugt
  • Göngustígar ofan Hrísvaðsfoss eru á köflum í slæmu ásigkomulagi

Tækifæri

  • Áframhaldandi viðhald og uppbygging innviða
  • Aukin stýring með frekari lokunum á villustígum
  • Aukin viðvera landvarða
  • Endurnýjun friðlýsingarskilmála og stjórnunar- og verndaráætlunar
  • Stækkun hins friðlýsta svæðis