Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir
Nyrst við Breiðafjörð, á vestasta tanga Íslands rís Látrabjarg úr sjó. Alla jafna er talað um Látrabjarg sem eitt og hið sama en í raun skiptist það í fernt og draga hlutar þess nöfn sín af bæjarnöfnum í nágrenninu. Hlutarnir fjórir frá vestri til austurs eru: Látrabjarg (Hvallátur), Bæjarbjarg (Saurbær á Rauðasandi), Breiðavíkurbjarg og Keflavíkurbjarg. Bjargið allt er um 14 km langt og yfir 440 m hátt þar sem það er hæst en sá hluti sem er innan friðlandsmarka er um 9,7 km langur og þar eru þéttustu sjófuglabyggðirnar. Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg í Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Líffræðileg fjölbreytni er mikil og á varptíma er þar að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggir á góðu fæðuframboði og búsvæðum fyrir fugla.
Mörk friðlandsins liggja um Brunnanúp í vestri, í Hálsegg, um Lambalág, Djúpadalsbrekkur og að Urðarhjalla, þaðan eftir landamerkjum Bæjarbjargs utan Geldingsskorardals og Melalykkju. Mörk friðlandsins ná tvo kílómetra út í sjó frá ystu mörkum á landi.