Efni í leikföngum

Hvað getum við gert?

 • Veljum umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu þegar það er í boði.
 • Kaupum leikföng sem eru CE merkt.
 • Þvoum og loftum um ný leikföng fyrir notkun þegar það er hægt til að losna við efnaleifar úr framleiðsluferlinu og rokgjörn efni.
 • Kaupum leikföng sem henta aldri barnsins en leikföng sem eru merkt fyrir börn undir 3 ára þurfa að uppfylla fleiri skilyrði en önnur leikföng. Þetta er einkum vegna þess að ungabörn eiga það gjarnan til að stinga hlutum í munninn.
 • Forðumst leikföng úr mjúku plasti – sérstaklega þau sem voru framleidd fyrir 2007 (þá voru settar strangari reglur). Góð þumalputtaregla er að kaupa ekki plast sem er mýkra en Lego kubbur.
 • Forðumst lyktsterk og klístruð leikföng, en það getur verið merki um óæskileg efni.
 • Takmörkum snertingu við ilmefni í vörum, en þau geta valdið ofnæmi.
 • Forðumst að leyfa ungum börnum að leika sér með hluti sem eru ekki leikföng eins og t.d. raftæki. Innihald efna í slíkum vörum uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til efna í barnaleikföngum.
 • Forðumst leikföng sem eru hættumerkt.
 • Verum gagnrýnin á vörur sem framleiddar eru utan EES þar sem efnalöggjöfin í Evrópu er með þeim strangari í heiminum.

Almennt um leikföng

Leikföng er risastór hópur af ólíkum vörum t.a.m. raftækjum, skrifföngum, skarti, föndurvörum, vörum úr plasti, úr tré og svo mætti lengi telja. Innan EES gilda strangari reglur fyrir leikföng en aðra hluti þar sem tekið er tillit til viðkvæmni barna fyrir útsetningu efna í kröfum til leikfanga. Leikföng merkt sérstaklega fyrir börn yngri en 3 ára þurfa að uppfylla enn frekari skilyrði og kröfur. Þó geta leikföng innihaldið ósækileg efni fyrir heilsu og umhverfi ef ekki hafa verið færðar sönnur á skaðsemi þeirra og því ekki forsendur til að setja reglur um notkun þeirra.

Reglur um efnainnihald í leikföngum voru hertar árið 2007 og því geta leikföng fyrir þann tíma verið með varasöm efni t.a.m. þalöt í mjúku plasti (aðallega PVC plasti) en slík efni eru talin hormónaraskandi. Kröfurnar urðu enn stífari árið 2013 og ýmis ilmefni sem geta verið ofnæmisvaldandi voru bönnuð og/eða takmörkuð.

Mikilvægt er að huga að efnum í umhverfi barna þar sem þau eru viðkvæmari fyrir áhrifum efna en fullorðnir. Það er vegna þess að:

 • Húð barna er þynnri en fullorðinna.
 • Börn anda, borða og drekka meira en fullorðnir gera í hlutfalli við líkamsþyngd.
 • Mörg kerfi líkamans eru ekki fullþroskuð, m.a. annars eru þau með viðkvæmara taugakerfi, ónæmiskerfi og æxlunarkerfi en fullorðnir. Þau hafa einnig minni getu til að vinnu úr og losa sig við efni úr líkamanum.
 • Ung börn eru gjörn á að stinga hlutum upp í sig og ef til vill smakka á því sem fyrir þeim verður.
 • Mörg börn stinga höndum upp í munninn við leik.
 • Efni geta losnað úr vörum og loðað við ryk og ung börn eyða miklum tíma í leik á gólfum þannig að þau geta verið útsettari fyrir þeim en fullorðnir.

Plast

Vinsælt er að nota plast í ýmis leikföng vegna þess hve ódýrt, fjölhæft og létt það er. Plast er hins vegar ekki eitt efni heldur oftast blanda af efnum til að ná fram ákveðnum eiginleikum, t.a.m. lit, mýkt, viðnámi gegn UV-ljósi, viðnámi gegn íkveikju eða loga o.s.frv. Sum þessara efna eru varasöm á meðan önnur teljast skaðlaus. Vandinn er að meirihluti efnanna hefur ekki verið rannsakaður nægilega til að fullvissa okkur um hvort þau eru hættuleg okkur eða ekki.

Mesta áhættan er í mjúkum plastleikföngum og rafmagnsleikföngum en í þeim er algengt að finnist þekkt hormónaraskandi efni og þungmálmar í of miklu magni. Gott er að miða við að forðast plast sem er mýkra en LEGO-kubbar. Að auki skal sýna varkárni með leikföng sem eru eldri en 2007 því þá voru settar strangari reglur um efnainnnihald leikfanga.

Nánari umfjöllun um efni í plasti.

Ilmefni

Yfirleitt er ilmefnum bætt við til að gefa vörum góðan eða ferskan ilm en þeim er líka bætt við vörur til að fela vonda lykt hráefna sem notuð eru við framleiðslu þeirra. Leikföng sem hafa lykt eru líklegri til að innihalda efni sem ber að varast, bæði ilmefni og önnur aukaefni. Ilmefni geta verið ofnæmisvaldandi og valdið ertingu í húð og augu.

Nánari umfjöllun um ilmefni.

Raftæki

Strangari kröfur eru varðandi efnainnihald leikfanga en fyrir raftæki þar sem áhættumat leikfanga gerir ráð fyrir viðkvæmni barna fyrir útsetningu efna. Að auki eru ung börn gjörn á að setja hluti í munninn og því er mikilvægt að hafa þau undir eftirliti og lána þeim frekar leikfang með CE merkingu.

Nánari umfjöllun um efni í raftækjum.

Vörur utan EES og netverslanir

Efnalöggjöf EES er sú strangasta í heiminum og því geta efni sem eru takmörkuð og/eða bönnuð í Evrópu fundist í vörum sem keyptar eru utan svæðisins. Þetta á bæði við þegar verslað er í búðum erlendis sem markaðssetja ekki vörurnar í Evrópu og við netverslanir sem hafa ekki lager eða selja ekki í verslanir í Evrópu heldur senda beint til kaupandans. Sérstaklega er varasamt að kaupa mjúk plastleikföng en þau innihalda iðulega þalöt sem eru hormónaraskandi. Að auki ber að varast raftæki en þar geta fundist eldtefjandi efni og þungmálmar.

Nánari umfjöllun um efni í vörum utan EES.


Tengt efni

Ráð um mjúk plastleikföng og leikföng úr vökva eða dufti á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).

10 ráð fyrir leikfangainnkaup leikskólaá dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Ráð um leikföng á sænsku á heimasíðu Efnastofun Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen).

Ráð um leikföng á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (Chemically clever island).

10 ráð frá Neytendasamtökum Danmerkur á dönsku um hvernig er hægt að minnka snertingu við ósækileg efni.


Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 3. apríl 2024.