Inn- og útflutningur

Ef þú ætlar að flytja til landsins og setja á markað sæfivöru verður hún að uppfylla kröfur í viðeigandi löggjöf. Það sama á við ef þú hyggst flytja út sæfivöru frá Íslandi, til markaðsetningar og notkunar á innri markaði Evrópusambandsins, sem Ísland hefur aðgang að í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). 

Um sæfivörur gildir reglugerð (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og um notkun þeirra, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur. 

Ef þú ert ekki viss um hvort varan sem þú vilt flytja inn eða út er sæfivara ættir þú að skoða vefsíðuna Er varan sæfivara?og upplýsingar um löggjöfina á síðunni Sæfivörur.

Innflutningur á sæfivörum

Flutningur sæfivöru inn á Evrópska efnahagssvæðið telst vera "markaðssetning vöru" samkvæmt sæfivörureglugerðinni, þegar ætlunin er að sæfivörunni verði dreift eða hún notuð innan EES. Þú verður að sjá til þess að sæfivaran, sem þú ætlar að flytja til Íslands, uppfylli kröfur sæfivörureglugerðarinnar og aðra viðeigandi löggjöf áður en hún er sett á markað eða notuð hér á landi.
Nánari upplýsingar um hvað þú þarft að gera er að finna á síðunni um að bjóða fram og nota sæfivöru á Íslandi.

Það er skilningur Umhverfisstofnunar að flutningur sæfivöru inn á sameiginlegt markaðsvæði EES, með það að markmiði að flytja hana þaðan út aftur, sé ekki talin markaðssetning, svo framarlega sem sæfivaran hafi ekki verið í dreifingu eða notkun innan þess. Þetta á þá t.d. við um vöru sem geymd er í vöruhúsi birgis á svæði fyrir vörur sem ætlaðar eru til flutnings út úr EES, en hvorki settar í dreifingu né notkun innan svæðisins. 

Athugið að reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH) kann einnig að gilda um innflutning á vörunni, einkum getur það átt við um önnur efni í vörunni en sjálf virku efnin. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðunni um REACH.

Innflutningur á meðhöndluðum vörum

Flutningur á meðhöndluðum vörum inn á Evrópska efnahagssvæðið er flokkuð sem "markaðssetning vöru" samkvæmt sæfivörureglugerðinni, ef ætlunin er að dreifa eða nota meðhöndluðu vöruna innan EES. Þú verður að sjá til þess að meðhöndlaða varan, sem þú ætlar að setja á markað eða nota hér á landi, uppfylli kröfur sæfivörureglugerðarinnar áður en hún er notuð eða sett á markað.

Nánari upplýsingar um það hvað þú þarft að gera er að finna á vefsíðunni um meðhöndlaðar vörur.
Það er skilningur Umhverfisstofnunar að flutningur meðhöndlaðrar vöru inn á sameiginlegt markaðsvæði EES, með það að markmiði að flytja hana þaðan út aftur, sé ekki talin markaðssetning, svo framarlega sem meðhöndlaða varan hafi ekki verið í dreifingu eða notkun innan þess. Þetta á þá t.d. við um meðhöndlaða vöru sem geymd er í vöruhúsi birgis á svæði fyrir vörur sem ætlaðar eru til flutnings út af EES en hvorki settar í dreifingu né notkun innan svæðisins. 
Athugið að reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH) kann einnig að gilda um innflutning á meðhöndluðum vörum. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefsíðunni um REACH.

Útflutningur á sæfivörum eða meðhöndluðum vörum

Ef þú ert að flytja út sæfivöru eða meðhöndlaða vöru frá Íslandi til lands á Evrópska efnahagssvæðinu, verður hún að uppfylla reglur Evrópu¬sambandsins, sem og aðra löggjöf í móttökulandinu eftir því sem við á. Athugaðu að á Íslandi gilda ekki allar reglur ESB um efni, heldur eingöngu þær sem hafa verið teknar inn í EES-samninginn og því er mikilvægt að kynna sér hvað gildir í móttökulandinu, af því að þar geta verið sérreglur í gildi, sem varða sæfivörur og meðhöndlaðar vörur.

Ef þú ert að flytja sæfivöru eða meðhöndlaða vörur beint frá Íslandi til lands utan EES  gilda kröfur sæfivörureglugerðarinnar ekki, en þar kann að vera til staðar hliðstæð löggjöf sem þarf að uppfylla og mikilvægt að kanna það.

Til þess að vara sé undanþegin kröfum sæfivörureglugerðarinnar má engin afhending vörunnar (dreifing eða notkun) eiga sér stað innan Íslands eða annars lands þar sem sæfivörureglugerðin gildir áður en varan er flutt út. 

Sjá einnig :