Leiðbeiningar

Hér fyrir neðan er að finna leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í hinni ýmsu starfsemi.

Leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna

Umhverfisstofnun hefur látið útbúa leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna í samræmi við 11. grein í reglugerð nr. 724/2008, um hávaða.

Útgáfa leiðbeininga um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna er þríþætt, leiðbeiningar þessar sem gefnar eru út af Umhverfisstofnun og tvennar leiðbeiningar til viðbótar sem gefnar eru út af Mannvirkjastofnun. Allar þrjár útgáfurnar fjalla um þau atriði sem koma fram hér að neðan. Í þessum leiðbeiningum er lögð áhersla á mörk fyrir hávaða í umhverfi barna, eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna og góð ráð gegn hávaða í umhverfi barna. Mannvirkjastofnun leggur sérstaka áherslu á hönnun húsnæðis þar sem börn dvelja og hætta er talin á að hávaði geti valdið þeim ónæði eða verið heilsuspillandi, annars vegar í nýju húsnæði og hins vegar í breyttu húsnæði. Vísað er til annarra leiðbeininga þar sem þörf er talin á.

Leiðbeiningar þessar fjalla um:

  1. Íslenski staðallinn „Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis“
  2. Reglugerð um hávaða
  3. Byggingarreglugerð
  4. Eftirlit með hljóðvist í umhverfi barna
  5. Hönnun húsnæðis þar sem börn dvelja
  6. Góð ráð gegn hávaða í umhverfi barna

Leiðbeiningar um mæliaðferðir við hljóðmælingar vegna eftirlits

Umhverfisstofnun hefur látið útbúa leiðbeiningar um mæliaðferðir við hljóðmælingar í samræmi við 11. grein í reglugerð nr. 724/2008, um hávaða.

Um er að ræða mæliaðferðir til nota við eftirfarandi mælingar á hljóðstigi:

  • Vegna umferðar frá vegum
  • Vegna flugumferðar
  • Vegna hávaða frá atvinnustarfsemi
  • Vegna hávaða á samkomum

Hljóðstig frá umferð á vegum

Lagt er að jöfnu hvort hljóðstig frá umferð er mælt með tilgreindum mæliaðferðum, eða reiknað út með samnorrænu reiknilíkani fyrir umferðarhávaða. Í báðum tilvikum er niðurstaða miðuð við tilteknar veðurfarslegar aðstæður og leiðrétt miðuð við meðaltals-umferðaraðstæður, bæði varðandi samsetningu umferðar, umferðarmagn og hraða.

Þessar mæliaðferðir miðast við að mælt sé allan daginn, allt kvöldið og alla nóttina. Einnig er þó leyft að mæla í styttri tíma og á sama tíma er þá talin sú umferð sem fer framhjá mælistaðnum, bæði léttir bílar (fólksbílar) og þungir bílar. Einnig skal mæla eða áætla meðalhraða bæði léttra bíla og þungra bíla sem framhjá fara á mælitíma. Þetta má gera með radarmælingum, eða tímamælingum milli fastra punkta (t.d. ljósastaura) eða með því að aka eftir veginum nokkrum sinnum, fylgja umferðinni og lesa af hraðamæli bílsins.

Hljóðstig frá flugumferð

Lagt er að jöfnu hvort hljóðstig frá flugumferð er mælt með tilgreindum mæliaðferðum, eða reiknað út með fullgildu reiknilíkani fyrir hávaða frá flugumferð. Í báðum tilvikum er niðurstaðan miðuð við tilteknar veðurfarslegar aðstæður og einnig meðaltalsaðstæður varðandi flugumferð, þ.e. gerðir flugvéla sem flugvöllinn nota og meðaltalsfjölda flugtaka og lendinga fyrir hverja gerð flugvéla.

Mæliaðferðin er tiltölulega einföld í notkun, en notkunarsviðið er takmarkað við tiltölulega einfaldar aðstæður varðandi veðurskilyrði og hæð flugvélar frá jörðu (stærð hornsins sem flugvélin sést í frá mælistað). Þessi mæliaðferð miðast við að mælt sé við flugtak og lendingu allra flugvélagerða sem máli skipta við tiltekinn flugvöll.

Hljóðstig frá atvinnustarfssemi

Lagt er að jöfnu hvort hljóðstig frá atvinnustarfsemi er mælt með tilgreindum mæliaðferðum, eða reiknað út með viðurkenndu reiknilíkani fyrir umhverfishávaða. Í báðum tilvikum er niðurstaðan miðuð við tilteknar veðurfarslegar aðstæður, og tilteknar aðstæður í rekstri eða framleiðslu.

Við mælingar á hljóðstigi frá atvinnustarfsemi skal mæla skv. annarri af tveimur norrænum mæliaðferðum:

Þessar mæliaðferðir miðast við að mælt sé allan daginn, allt kvöldið og alla nóttina. Einnig er þó leyft að mæla í styttri tíma. Skilgreindar eru veðurfarslegar aðstæður, einkum varðandi vindátt og vindhraða, og mæla skal vindhraðann á mælitímanum.

Hljóðstig á samkomum

Viðmiðunarmörk fyrir hljóðstig eru annars vegar sett fyrir samkomustaði og útiskemmtanir til að takmarka það hljóðstig sem gestir og starfsmenn dveljast í. Þessi kafli fjallar um mælingar á slíku hljóðstigi. Hins vegar eru svo umhverfisáhrif á nærliggjandi byggð, vegna hávaða sem berst frá samkomustöðum, en um það gilda ákvæði um hávaða frá atvinnustarfsemi. Í slíkum tilvikum skal nota mæliaðferðir eða reiknilíkön fyrir hljóðstig frá atvinnustarfsemi.

Lýsing á mæliaðferðinni

Ef gesturinn er á sama stað allan tímann (tónleikar, kvikmyndasýningar o.s.frv.) skal mæla á þeim stað þar sem hljóðstigið er hæst. Ef viðburðurinn stendur lengur en 1 klst. skal ákvarða jafngildishljóðstig og hámarkshljóðstig fyrir öll 60 mínútna tímabil sem viðburðurinn nær yfir, svo og jafngildishljóðstig fyrir viðburðinn í heild. Ef viðburðurinn er styttri en 1 klst. er mælt jafngildishljóðstig og hámarkshljóðstig fyrir viðburðinn í heild.

Ef gesturinn er á hreyfingu (skemmtistaðir, ölstofur, líkamsræktarstöðvar o.s.frv.) er jafngildishljóðstig og hámarkshljóðstig mælt í 15 mínútur. Jafngildishljóðstig er mælt á þeim stöðum þar sem gesturinn hefur einhverja viðdvöl, en hámarkshljóðstig alls staðar þar sem leyfilegt er að gestir séu.

Ef dansgólf er á staðnum skal mæla jafngildishljóðstig þar, og e.t.v. á einum stað enn, eftir því hvernig dreifing hljóðsins er á staðnum. Ef ekki er dansgólf á staðnum skal mæla jafngildishljóðstig þar sem hljóðstigið er hæst. Hámarkshljóðstigið er mælt þar sem hljóðstigið er hæst.