Eftirlit með plöntuverndarvörum á markaði

Tilgangur og markmið:

  • Að fylgjast með því að varnarefni á markaði séu skráð / hafi markaðsleyfi.
  • Að skoða hvort merkingar á varnarefnum séu í samræmi við gildandi lög og reglur. 
  • Að upplýsa aðila sem markaðssetja varnarefni um skyldur þeirra gagnvart gildandi lögum og reglugerðum á þessu sviði.

Framkvæmd og helstu niðurstöður: 

Verkefnið var unnið í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Farið var eftirlit í fylgd með Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þann 11. júní 2013 í fyrirtækin Bauhaus, Frjó Quatro ehf og Blómaval. Engin varnarefni voru til sölu í Bauhaus. Hjá Frjó Quatro ehf voru gerðar athugasemdir við merkingu á tveimur vörum. Hjá Blómavali var farið fram á að tvær vörur sem ekki höfðu markaðsleyfi yrðu teknar úr sölu.

Farið var í eftirlit í fylgd með Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hjá Garðheimum Gróðurvörum ehf þann 26. júní 2013. Gerðar voru athugasemdir við merkingar á 9 vörum þar sem merkingar á íslensku vantaði. Farið var fram á förgun á 10 vörum sem ekki höfðu markaðsleyfi. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis fór í eftirfylgni þann 12. september og ítrekaði kröfur um að fyrirtækið brygðist við athugasemdum þess. Þann 30 september barst staðfesting í því að Garðheimar Gróðurvörur ehf hefðu fengið í hendur próförk að íslenskum merkimiðum fyrir þær vörur sem voru vanmerktar og staðfestingu frá Efnamóttökunni hf um förgun á þeim varnaefnum frá Garðheimum Gróðurvörum ehf sem ekki voru með markaðsleyfi hér á landi þegar eftirlitið átti sér stað.