Heilnæmi baðvatns

Árið 2009 var hrint af stað samstarfsverkefni Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar þar sem kannað var heilnæmi laugarvatns og öryggi á sundstöðum um allt land. Alls voru skoðaðir 124 sundstaðir og rannsökuð 376 vatnssýni. Verkefnið stóð yfir frá júní og fram í október s.l. Skýrsla með helstu niðurstöðum var gefin út árið 2009.

Úttekt á heilnæmi baðvatns og öryggi á sund- og baðstöðum var endurtekin árið 2013. Skýrsla með helstu niðurstöðum.

Lagðar voru spurningar fyrir ábyrgðaraðila á sundstöðunum um innra eftirlit , þjálfun starfsfólks og hvaða skyndihjálparbúnaður væri til staðar. Reglum um aldurstakmark var vel framfylgt, en á nokkuð marga sundstaði vantaði skriflegar öryggisreglur, neyðaráætlanir og merkingar um dýpi lauga og merkingar um bann á dýfingum.

Björgunartæki, sem eiga að vera til staðar, vantaði í um 25% tilfella. Á um 80% sundstaða höfðu verið haldin námskeið í skyndihjálp annað hvert ár fyrir afgreiðslufólk og baðverði. Á um 75% sundstaða höfðu verið haldin árlega námskeið sem lauk með hæfnisprófi starfsmanna er sinna laugargæslu.

Einnig var spurt um tíðni klórmælinga og skráningu þeirra. Vatnssýni voru tekin úr samtals 376 sund- og setlaugum á þessum stöðum og var mældur í þeim gerlafjöldi við 37°C, frír og bundinn klór, hiti og sýrustig. Bakterían Pseudomonas aeruginosa var mæld í 182 sýnum. Hafa ber í huga að niðurstöður sýna ástandið eins og það var þegar sýni voru tekin, en segja ekki til um hvernig það er í annan tíma.

Mikill munur er á niðurstöðum örverusýna eftir flokkum lauga. Munurinn endurspeglar að miklu leyti mismunandi vatnshreinsibúnað, klór- og sýrustigsstýringu í laugunum.

 

Baðkallinn - Smelltu á myndina til að sækja PDF skrá PDF-skrá PNG-skrá