Losunarheimildir

Photo by ian dooley on Unsplash

Úthlutun losunarheimilda til flugrekenda byggist í ríkum mæli á einsleitni, áherslu á jöfn samkeppnisskilyrði flugrekenda og miðstýringu stofnana sambandsins,

Sameiginleg losunarmörk gilda fyrir sambandið í heild en ekki fyrir hvert ríki um sig. Úthlutun til flugrekenda er samræmd í öllum ríkjum og byggist á svonefndu árangursviðmiði sem tekur mið af losun á hvern tonnkílómetra. Þannig er flugrekendum sem reka sparneytnar flugvélar ívilnað á kostnað þeirra sem losa hlutfallslega meira magn koldíoxíðs út í andrúmsloftið í starfsemi sinni. Stærstum hluta losunarheimilda í kerfinu er úthlutað endurgjaldslaust til flugrekenda, eða 85%, en 15% verða seld á uppboði. 

Endurgjaldslaus úthlutun til einstakra flugrekenda ræðst af svokölluðu árangursviðmiði sem tekur mið af því hversu mikið koldíoxíð flugrekandi losar í samanburði við aðra flugrekendur í kerfinu. Losunarheimildum hefur þegar verið úthlutað til flugrekenda en áður en til úthlutunar kom, var víðtækra upplýsinga aflað um sögulega losun og hlutdeild einstakra flugrekenda í henni. Vöktun á losun frá flugi hófst 1. janúar 2010 í samræmi við vöktunaráætlanir sem flugrekendur höfðu skilað inn til lögbærra stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig.

Úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda

Umhverfisráðherra setti þann 9. desember 2011 reglugerð nr. 1131/2011, um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda, og er hún í samræmi við ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. október 2011. Með reglugerðinni hefur verið ákveðið eitt árangursviðmið fyrir viðskiptatímabilið 2012 og annað fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020. Á tímabilinu 2012 fengu flugrekendur úthlutað 0,6797 losunarheimildum fyrir hverja 1000 tonnkílómetra, en fyrir tímabilið 2013-2020 fá flugrekendur úthlutað á hverju ári 0,6422 losunarheimildum fyrir hverja 1000 tonnkílómetra.

Níu flugrekendur, þar af tveir íslenskir, sóttu um endurgjaldslausar losunarheimildir til Umhverfisstofnunar. Byggt á ofangreindum árangursviðmiðum og vottuðum upplýsingum frá flugrekendum um fjölda tonnkílómetra í starfsemi þeirra árið 2010 reiknaði Umhverfisstofnun úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda í viðskiptakerfi ESB fyrir viðskiptatímabilið árið 2012 og fyrir hvert ár á viðskiptatímabilinu 2013-2020.

Í kjölfar ákvörðunar sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 62/2014 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, og að fellt verði inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um breytingu á tilskipun 2003/87/EB minnkaði gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir og einungis losun frá flugi innan EES og til, frá og innan ríkja ystu svæða ESB fellur undir gildissviðið.

Þar af leiðandi fá þeir flugrekendur sem að fengu úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum færri heimildum úthlutað í hlutfalli við minnkun á á skuldbindingum um innskil á losunarheimildum á tímabilinu 2013-2016 og svo frá og með árinu 2017. 

Umhverfisstofnun hefur endurreiknað úthlutun losunarheimilda til flugrekenda í viðskiptakerfi ESB fyrir tímabilið 2013-2016 í samræmi við reglugerð nr. 1131/2011 um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda. 

Þeir flugrekendur sem hafa fengið úthlutað endurgjaldslausum losunarheimildum en eru undanþegnir frá viðskiptakerfinu vegna undanþágu til flugrekenda sem eru ekki í atvinnurekstri og eru með heildarlosun undir 1.000 tonnum af CO2 á ári, fá einungis úthlutað heimildunum en þær verða ekki millifærðar á reikninga þeirra. Ef að flugrekandi eykur virkni sína yfir 1000 t CO2 mörkin í framtíðinni verða heimildirnar millifærðar á reikning hans í skráningarkerfinu. 

Eftirtaldir flugrekendur fengu úthlutað og millifært heimildum:

CRCO
Flugrekandi
Úthlutun 2012
Árleg úthlutun 2013-2016
Árleg úthlutun 2017-2020
3176
FLUGFELAG ISLANDS

10.490

8.011

8.011

1479
ICELANDAIR

355.491

186.364

186.364

 

Eftirtaldir flugrekendur fengu úthlutað heimildum en ekki millifærðar þar sem þeir eru undanþegnir viðskiptakerfinu

CRCO
Flugrekandi
Úthlutun 2012
Árleg úthlutun 2013-2016
Árleg úthlutun 2017-2020

28475

Silk Way Airlines

68.550

4

4

30279

Papier Mettler

66

61

61

36291

RAFAN HOLDING BV

40

1

1

35130

Switchback Argentina, LLC

1

0

0

35682

Investair 300, LLC

3

1

1

f10895
Cooper Industries

4

2

2

f12111
Supervalu Inc.

16

4

4

 

Losunarheimildir sem eru ekki millifærðar verða ógildar, þær verða ekki boðnar upp eða endurúthlutað.

Nánari upplýsingar um endurgjaldslausa úthlutun má finna á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar : https://ec.europa.eu/clima/policies/ets/allowances_en


Sjóður fyrir nýja flugrekendur 

Af þeim 85% losunarheimilda í bandalaginu sem er úthlutað endurgjaldslaust til flugrekenda, verða 3% sett í sérstakan sjóð fyrir nýja flugrekendur eða flugrekendur. Á viðskiptatímabilinu 2013-2020 nær úthlutunin úr þeim sjóði til tímabilsins frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2020. Nýr þátttakandi í flugstarfsemi telst:

  • Flugrekandi sem hefur starfsemi að loknu vöktunarári yfirstandandi viðskiptatímabils (árið 2010)
  • Flugrekandi sem eykur fjölda tonnkílómetra í starfsemi sinni að meðaltali um meira en 18% á ári milli vöktunaráranna 2010 og 2014, að báðum árunum meðtöldum.

Flugrekandi telst þó ekki nýr þátttakandi ef flugstarfsemi hans er að öllu eða einhverju leyti framhald á flugsarfsemi sem áður hefur verið á vegum annars flugrekanda.

Flugrekendum sem óskuðu eftir úthlutun úr sjóði fyrir nýja flugrekendur bar að skila vöktunaráætlun fyrir tonnkílómetra í ágúst 2013, og skiluðu vottaðri tonnkílómetra skýrslu fyrir 30. júní 2015.

Tveir íslenskir flugrekendur sóttu um úthlutun úr þessum sjóði og fengu úthlutað og millifært heimildum. Þar sem að úthlutunin úr sjóðnum nær einungis til helmings viðskiptatímabilsins fá þessir aðilar tvöfalda úthlutun, það er fyrir tvö ár í senn.

CRCO
Flugrekandi
Árleg úthlutun 2017-2020
Heildarúthlutun 2017-2020
40090
WOW Air

77.252

309.008

27616
Bluebird Cargo

7.329

29.316

 

Nánar um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda má finna í 18-20 gr. laga nr. 70/2012 um loftslagsmál.

 

Algengar spurningar og svör varðandi sjóð fyrir nýja flugrekendur