Grænþvottur

Hvað er grænþvottur? 

Grænþvottur er þegar fyrirtæki setur fram rangar eða villandi upplýsingar um umhverfiságæti eigin vöru. Grænþvottur er græn markaðssetning sem gefur til kynna að frammistaða seljandans sé betri eða ágæti vörunnar eða þjónustunnar meira frá sjónarhóli sjálfbærrar þróunar en „innistæða er fyrir“. í sinni skýrustu birtingarmynd er um að ræða fyrirtæki sem vill blekkja neytendur – þ.e.a.s. er með einbeittan brotavilja. 

 

 

Það er þó alls ekki alltaf svona svart á hvítu. Fyrirtæki geta verið uppvís um grænþvott bæði vísvitandi og óviljandi. Oft fer það líka mjög eftir þekkingu í samfélaginu og stöðu neytenda hvort um grænþvott er að ræða eða ekki.

Hvernig get ég forðast grænþvott? 

Það er mikilvægt að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem fyrirtæki setja fram. Neytendur þurfa að spyrja spurninga eins og "hvað er náttúrulegt?" eða "er náttúrulegt betra fyrir mig?". Auðveld leið til að komast hjá grænþvotti er að læra nokkur áreiðanleg umhverfismerki og leita að þeim þegar við verslum. 

 

Samkvæmt lögum 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eru viðskiptahættir villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða eru með þeim hætti að neytendum eru veittar rangar upplýsingar. Þar af leiðandi getur grænþvottur verið ólöglegur sé hann ekki í samræmi við þessi lög. 

Eitt af því sem við getum gert er að vera virkir neytendur. Neytendastofa ber ábyrgð á að lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sé fylgt og þau lög eiga meðal annars að geta verndað neytendur gegn grænþvotti. Ef að við sjáum markaðssetningu eða auglýsingar þar sem við teljum að það sé visvítandi verið að blekkja neytendur eða að sönnun vanti á fullyrðingum er hægt að tilkynna slíkt til Neytendastofu. Það getur hver sem er skilað inn athugasemd, bæði nafnlausum og með nafni, inn á rafrænu þjónustutorgi Neytendastofu. 

Hér að neðan má sjá kynningu frá sérfræðingi Umhverfisstofnunar um grænþvott.