Stjórnsýsla

Umhverfisstofnun hefur umsjón með innleiðingu rammatilskipunar Evrópusambandsins um verndun vatns  (Directive 2000/60/EC) sem samþykkt var árið 2000. Á Íslandi gengur innleiðing vatnatilskipunar undir heitinu „Stjórn vatnamála“ en meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að verndun vatns og vistkerfa þess og þannig hafa bein áhrif á að minnka álag á vatn.  Samkvæmt tilskipuninni er markmið allra Evrópulanda að yfirborðsvatn og grunnvatn sé í  viðvarandi góðu ástandi. Tilskipunin er rammi utan um margar aðrar tilskipanir er varða mengun og verndun vatns. Innleiðing tilskipunarinnar hófst á Íslandi árið 2011 með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, reglugerð nr. 935/2011 um stjórn vatnamála og reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Tilskipunin nær yfir grunnvatn og allt yfirborðsvatn (þ.e. straumvötn, stöðuvötn, lón, árósavatn og strandsjó, auk jökla).

Innleiðing vatnatilskipunar er hluti af skuldbindingu Íslands samkvæmt EES samningnum og mun fylgist eftirlitsstofnun EFTA með innleiðingunni hér á landi.

Lög um stjórn vatnamála mynda ramma yfir margar reglugerðir á sviði umhverfismála. Þær helstu eru reglugerð um neysluvatn 536/2001, um varnir gegn mengun vatns 796/1999, um varnir gegn mengun grunnvatns 797/1999, um fráveitur og skólp 798/1999, um meðhöndlun seyru 799/1999, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit 550/2018, um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri 804/1999. Að auki tengjast tilskipanir ESB um flóð og haf lögum um stjórn vatnamála.

Með heildstæðri stjórn vatnamála er gert ráð fyrir að allir sem nota vatn eða valda álagi á vatn starfi saman og taki þátt í verkefninu, þvert á sveitarfélagsmörk. Stjórn vatnamála er þannig samvinnuverkefni stjórnvalda, stofnanna, ráðgjafa, sveitarfélaga, heilbrigðisnefnda og náttúruverndar- eða umhverfisnefnda sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almennings sem m.a. vinna saman í vatnasvæðisnefnd á hverju vatnasvæði. Einnig munu sérfræðingar samstarfsstofnanna á sviði ferskvatns og sjávar vinna sérhæfð verkefni. 

Markmið stjórnar vatnamála er að:

  • Vernda vatn og vistkerfis þess, hindra frekari rýrnum vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatni njóti heilstæðrar verndar. 
  • Jafnframt að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnaauðlindarinnar. 

Til að ná fram markmiðunum skal vinna vatnaáætlun, aðgerðaáætlun og vöktunaráætlun. 

Samvæmt lögunum skal allt vatn vera í mjög góðu eða góðu vistfræðilegu og efnafræðilegu ástandi þó með þeim fyrirvara að aðgerðir til þess rýri ekki hag íbúa og kostnaður sé ekki úr hófi fram (sjá 16. og 18 gr. laga um stjórn vatnamála). 

Innleiðingartímabil stjórnar vatnamála

Innleiðingartímabil stjórnar vatnamála hófst árið 2011 en hlé var gert á vinnunni frá árinu 2013-2017. Meðal verkefna er að:

  • Skilgreina vatnshlot og gerðir vatns.
  • Safna tiltækum gögnum um vatn.
  • Kortleggja svæði sem eru vernduð vegna sérstöðu vatns.
  • Greina álag.
  • Leggja mat á álag á vatn og áhrif þess.
  • Kortleggja ástand vatns og gæðaflokka vistfræðilegt ástand þess.
  • Setja fram umhverfismarkmið um að bæta eða viðhalda ástandi vatns.
  • Leggja fram aðgerðaráætlun svo að markmiðin náist.
  • Áætlun um heilsteypta vöktun vatns hér á landi. 
  • Gefa út vatnaáætlun fyrir Ísland.

Vatnaumdæmi, Vatnasvæði 

Ísland er eitt vatnaumdæmi eða ein heildar stjórnsýslueining sem nær til íslenskra vatnasvæða ásamt árósarvatni og strandsjó sem þeim tengjast. Vatnaumdæminu er síðan skipt í fjögur vatnasvæði. Við þá ákvörðun er tekið mið af bæði jarðfræðilegum og vatnafræðilegum þáttum. Fyrir hvert vatnasvæði skal setja fram umhverfismarkmið um að draga úr álagi og bæta eða viðhalda góðu ástandi vatns.

Á hverju vatnasvæði er starfandi vatnasvæðanefnd (sjá nefndir og ráð).

 

 

Ráð og nefndir

Eitt vatnaráð starfar á landsvísu og er megin hlutverk þess að vera ráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála. Vatnaráð er skipað til fimm ára í senn. Í ráðinu skulu sitja fimm fulltrúar og fimm varamenn, skipaðir af umhverfisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, iðnaðarráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Á hverju vatnasvæði starfar auk þess vatnasvæðisnefnd og á landsvísu starfa tvær ráðgjafanefndir.