Náttúra Þjórsárvera

Þjórsárver geyma einar mestu gróðurvinjar sem fyrirfinnast á hálendi Íslands. Slíkar vinjar hálendisins eru leifar samfelldrar gróðurþekju sem var fyrrum miklu víðáttumeira en nú er. Þessar vinjar eru heimkynni fjölda lífvera sem þrífast ekki í auðninni umhverfis. Þjórsárver eru jafnframt uppspretta fræs, eins konar fræbanki, sem getur komið landinu umhverfis til góða og stuðlað að uppgræðslu þar ef skilyrði verða hagstæðari. Þetta eykur til muna mikilvægi þessara grónu svæða. Stór gróin svæði á hálendinu hafa blásið upp eftir landnám Íslands, en há vatnsstaða í Þjórsárverum hefur bjargað verunum frá þeim örlögum. Í þessari hálendisvin finnast fleiri tegundir lífvera en nokkurs staðar annars staðar á hálendi Íslands og þar eiga flestir hópar lífvera fulltrúa.

Þjórsárver eiga tilvist sína að þakka vatni, bæði jökulvatni og lindarvatni. Vatn er alls staðar, ár og lækir kvíslast um landið og í dældum sitja tjarnir og pollar. Hornsíli finnast í lækjunum og skötuormur og önnur krabbadýr eru í nánast hverri tjörn, mikilvæg fæða margra fugla. Ein mesta ríkidæmi Þjórsárvera birtist í líffræðilegum fjölbreytileika svæðisins og hafa vistkerfi sem þarna finnast hátt verndargildi. Í verunum hafa fundist um 167 tegundir háplantna og 244 tegundir skordýra, kóngulóa og langfætlna. Refur, hagamús og minkur lifa. Þjórsárver eru mjög mikilvæg fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni á hálendi Íslands.

Hluti Þjórsárvera er flæðiengi, sem eru afar fágæt á hálendinu. Í slíku mýrlendi er vatn sírennandi. Innan verana er líka að finna rústaflár, sem eru annars afar fágætar. Töluverðan sífrera (jarðklaka) er þar að finna, þar sem frost er í jörðu allt árið um kring. Þar rísa upp bungumyndaðir hólar eða þúfur, svonefndar rústir, sökum frostlyftingar. Lyftingin getur orðið slík að efsta lag þúfanna þornar, mosi visnar og rústin verður brúnleit, svo eftir stendur bungulagaður moldarhóll, blandaður ís og jarðvegi, sem gjarnan er sprungin í toppinn. Rústir Þjórsárvera eru fjölbreyttari og víðáttumeiri heldur en annarsstaðar á hálendi Íslands. Framtíð þeirra er hinsvegar verulega ógnað með hlýnandi loftslagi. Rústamýrar njóta alþjóðlegrar verndunar samvæmt Bernarsamningnum.

Það sem gerir Þjórsárverasvæðið svo mikilvægt sem raun ber vitni er að þar finnast svo mörg búsvæði og einstök landslagsheild sem njóta verndar í nánast ósnortinni mynd, þótt sett hafa verið upp vatnsmiðlunarmannvirki, Kvíslaveita, þar sem eru 25-30 km2 uppistöðulón og veituskurðir í jaðri friðlandsins. Við gerð veitunnar fóru sex ferkílómetrar gróins lands undir vatn. Allt frá því er landið var friðlýst, og raunar fyrr, hafa legið fyrir áætlanir um að nýta umtalsverðan hluta friðlandsins til vatnsmiðlunar vegna vatnsaflsvirkjana og er sú framkvæmd nefnd Norðlingaölduveita. Slík vatnsmiðlun ylli alvarlegum skemmdum á grónu landi og yrði til þess að rjúfa landslagsheildina. Þá er enn fremur hætta á að gróður yrði fyrir skaða vegna rofs af völdum vatns og vinda. Landið er mjög flatt og af þeim sökum er mjög erfitt að spá fyrir um þann skaða sem yrði á gróðri. Áætlanir um Norðlingaölduveitu hafa verið lagðar af í bili. Í það minnsta yrði hugsanleg veita mun minni en upprunalega var gert ráð fyrir.

Náttúrufegurð Þjórsárvera og umhverfis þeirra með jökulinn í baksýn er alþekkt og fjölbreyttur gróður, tjarnir og vötn, mikið fuglalíf og smærri dýr, jökulár og víðernið gera þetta svæði einstakt í sinni röð. Á Íslandi fækkar ört þeim svæðum þar sem ekki hafa verið sett niður mannvirki af einhverju tagi, skálar, kofar, vegir eða uppistöðulón. Þjórsárver eru því án nokkurs vafa eitt dýrmætasta svæðið á hálendi Íslands.