Sjálfboðaliðar ICV

Skilgreining og afmörkun sjálfboðaliðastarfa í náttúruvernd og vistheimt

Hvað er sjálfboðaliðastarf í náttúruvernd?

Sjálfboðaliðastarf í þágu náttúruverndar byggir á sterkum sjónarmiðum eða hugsjónum. Markmiðið er að starfið nýtist náttúrulegu umhverfi og almenningi, líkt og björgunarsveitir, rauði krossinn og skátar, en stuðli ekki efnahagslegum hagsmunum einstaklinga eða fyrirtækja.

Sjálfboðaliðastarf í þágu náttúrunnar þekkist víða um heim. Án aðstoðar frá sjálfboðaliðum myndu markmið um náttúruvernd ekki nást á mörgum svæðum, þeir sinna verklegri vinnu en einnig búa þeir yfir mikilli þekkingu sem þeir afla sér og miðla. Sjálfboðaliðar sinna oft verkefnum sem annars yrðu ekki unnin. Europarc Federation hefur látið útbúa viðmiðunarreglur um gæðastjórnun sjálfboðaliðastarfs á friðlýstum svæðum í Evrópu, og er lýsing á afmörkun sjálfboðaliðastarfs hjá Umhverfisstofnun í samræmi við þær reglur.

Afmörkun sjálfboðaliðastarfa hjá Umhverfisstofnun

Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar starfa á náttúruverndarsvæðum að vistheimt (ecological restoration) í þágu náttúruverndar, sem sagt vinna ávallt í verndunarskyni, hvort sem það er til að endurheimta, viðhalda eða vernda landslag, verndun dýralífs og gróðurfars, og til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.

Sjálfboðaliðar sinna aldrei launuðum störfum og verktakatækum störfum.

Öll verkefni sjálfboðaliða í náttúruvernd eru verkefni sem væru ekki unnin ef ekki væri fyrir sjálfboðaliðana. Vinnan er nær einvörðungu unnin með handverkfærum. Verkefnin eru yfirleitt staðsett á svæðum sem eru úr alfaraleið (og því getur reynst erfitt að fá fólk í vinnu á slíkum svæðum).

Einnig öðlast sjálfboðaliðarnir lærdóm og reynslu af sínum störfum sem nýtist þeim í námi eða starfi.

Verkefni sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar veitir þeim faglega þekkingu í verndun náttúru og í stýringu gesta á náttúruverndarsvæðum.

Meðal okkar sjálfboðaliða eru því oft einstaklingar í starfsnámi eða „internship“, sem nýtist þeirra námsferli og þau hljóta styrk frá sínum háskóla.

Með þessu móti uppfyllir Umhverfisstofnun einnig ákvæði um fræðslu samanber ákvæði 12.gr og 2.msgr. 13.gr í náttúruverndalögum 60/2013.

Verkefni sjálfboðaliðanna í náttúruvernd og vistheimt eru mörg, má þar nefna: 

Afmörkun, viðhald og lagning náttúruleg gönguleiða í óbyggðum (Stikun, tröppur og ræsi með grjóti).

Endurheimt landslags og víðernis (loka villustígum, raka yfir hjólför vegna aksturs utan vega).

Landmótun (laga göngustíga svo þeir falli betur inn í landslagið), mosaflutning.

Líffræðileg fjölbreytni: uppræting ágengra plöntutegunda.

Endurreisn gamalla varða (með umsjón sérfræðings frá Minjastofnun).

Hreinsun náttúrulegra og ósnortinna svæða (Hornstrandir, Rauðasandur, Reykjanes).

Aðstoða við starfsemi í þjóðgörðum (sem fæst lærdómur af) t.a.m. úttekt á ástandi náttúrulegra gönguleiða. Vöktun gesta á náttúruverndarsvæðum. Vöktun lífríkis – aðstoða landverði.

Ýmis konar fræðslu og náttúrutúlkun um náttúruna og umhverfi.

Kynning og þjálfun (sjálfboðaliðar með mikla reynslu fræða nýja sjálfboðaliða og koma þekkingunni þannig áfram, t.d. hvað varðar liðstjórn).

Upplýsingar um sjálfboðaliðastarf á ensku