Surtarbrandsgil

Af hverju friðlýsing?

Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Tilgangur friðlýsingarinnar er að vernda steingerðar leifar gróðurs sem er að finna í millilögum, einkum surtabrandi og leirlögum. Þetta eru leifar gróðurs sem klæddu landið á tertíer-tímabilinu.

Sýning Umhverfisstofnunar um náttúruvættið Surtarbrandsgil í gamla prestsbústaðnum á Brjánslæk er opin daglega á sumrin frá kl 10:00 – 14:00. Sýningin er öllum opin án endurgjalds. Í tengslum við opnunartíma sýningar er boðið upp á göngur í fylgd landvarðar í gilið eftir því sem hér segir:

Þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga kl. 13:00

Athugið að uppganga í gilið er óheimil nema í fylgd landvarðar. Frekari upplýsingar eru veittar í síma 822-4080  eða 822-4081.

 

Staðsetning svæðisins

Surtabrandsgil er í landi Brjánslækjar á Barðarströnd innan landamerkja Vesturbyggðar. Náttúruvættið afmarkast fyrir mynni gilsins að austan og að hábrún þess að sunnan, vestan og norðan.

 

Stærð náttúruvættisins er 272 ha.

Hvað er áhugavert?

Í Surtabrandsgili eru leifar tegundaríkustu skóga, sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi, í um það bil 12 milljóna ára gömlum setlögum. Plöntuleifarnar, laufblöð, aldin, fræ og frjókorn, hafa sest til í frekar grunnu stöðuvatni og grafist þar í botnsetið. Væntanlega hafa plönturnar vaxið meðfram vatns- og árbökkum í daladrögum þar sem grunnvatn stóð frekar hátt. Í vatninu var mikið af kísilþörungum sem féllu til botns og mynduðu ljósleita skán á öllum stærri flötum, einkum laufblöðum. Því eru flögur úr gilinu ljósar af kísilþörungum á annarri hlið, en dökkar á hinni.

Flestar þær trjátegundir sem mynduðu skóga landsins fyrir 12 milljónum ára eru útdauðar og skyldustu núlifandi tegundir þrífast á suðlægari breiddargráðum í tempruðum og heittempruðum lauf- og barrskógum. Meðal barrtrjáa má nefna þin, furu, greni, japansrauðvið, og vatnafuru. Af lauftrjám er meðal annars búið að bera kennsl á agnbeyki, anganvið, álm, birki, elri, fjórmiðju, hesli, hlyn, magnólíu, platanvið, lyngrós, sætblöðku, topp, túlípantré, valhnotu, víði, vænghnotu, þyrni og ösp.

Náttúruminjar

Surtarbrandur er myndaður úr plöntuleifum sem hafa kolast og pressast saman undan fargi hraunlaga, enda finnst hann nær alltaf á milli fornra hraunlaga. Jarðlögin eru frá síðari hluta nýlífsaldar, einkum míósen-tíma og eru yngri en 16-15 milljón ára. Setlög eru víða milli hraunlaga bæði vestanlands og austan. Rauð, frekar fínkornótt setlög eru frekar algeng, en þau eru talin forn jarðvegur, enda má víða sjá í þeim gömul gjóskulög. Gráleit sand- og völubergslög eru einnig algeng og eru þau að mestu leyti ár- og vatnaset.

Myndin sýnir einfalt jarðlagasnið af lögum í Surtarbrandsgili. Setlög með heillegum lífveruleifum, laufblöðum, aldinum og fræjum, eru að mestu úr siltsteini en steingervingar eru einnig í sandsteinslögum í gilinu. Jarðlagaeiningarnar þrjár sem geyma plöntusteingervinga eru auðkenndar með laufblöðum.

Menningaminjar

Surtarbrands er víða getið í ferðabókum og Íslandslýsingum frá því fyrr á öldum. Hann var talsvert notaður til heimabrúks þótt hann væri ekki sérlega gott eldsneyti. Hann logaði illa enda frekar steinefnaríkur. Vinnsla á honum jókst mikið í heimsstyrjöldinni fyrri þegar verulegs kolaskorts tók að gæta. Hún gekk þó misjafnlega og einna best á Skarði á Skarðsströnd og á Tjörnesi, en þar voru tvær námur þegar best lét.

Aðgengi

Náttúrvættið er í landi Brjánslækjar vestan friðlandsins í Vatnsfirði. Um hálftíma gangur er að gilinu eftir merktum stíg.

Steingerðar plöntuleifar  eru  ekki endurnýjanlegar;  það sem er tekið í burtu er ekki afturkræft og hætta er á hruni úr gilinu. Fólki er óheimil för um gilið nema með samþyki ábúenda eða í fylgd landvarðar.

Skipulagðar gönguferðir eru í gilið yfir sumartímann í fylgd landvarðar á svæðinu.

Nánari upplýsingar í síma 591 2000.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Auglýsing nr. 103/1975 í Stjórnartíðindum B. 

Styrkleikar

Svæðið er dýrmætt vegna setlagabrota sem þar finnast með steingervingum úr surtarbrandslögum og er vitnisburður um gróðurfar og loftslagsaðstæður sem ríkja ekki lengur hér á landi. Svæðið er mikilvægt fyrir rannsóknir, en aldursgreiningar á blágrýtishraunlögunum í Surtarbrandsgili gefa til kynna að aldur þeirra liggi á bilinu frá 9,1 – 11,9 milljónum ára. Náttúruupplifun og menningarminjar gera svæðið sérstakt. Samkvæmt auglýsingu er bannað að fara í gilið nema með leyfi landeiganda. 

Landvörður hefur haft aukið eftirlit með svæðinu seinustu sumur og hafa verið skipulagðar ferðir í gilið í fylgd landvarðar. Nokkur skilti hafa verið sett upp á svæðinu með upplýsingum og fræðslu til ferðamanna og settir hafa verið upp sýningarkassar með sýnishornum af surtarbrandi sem dregur úr álagi á gilið sjálft. Að auki hafa verið sett upp hlið til varnar því að ferðamenn fari ekki í gilið án leyfis. Göngustígur í gilið hefur verið bættur. Villandi upplýsingar í erlendum ferðahandbókum um að leyfilegt sé að fjarlægja steingervinga úr gilinu hafa verið fjarlægðar. Bílastæði við Flakkara hafa verið afmörkuð og stækkuð.

Veikleikar

Svæðið hefur takmarkaða innviði til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna. Setlögin eru viðkvæm fyrir raski og er skaðinn óafturkræfur. Landvarsla er ekki nægjanleg á svæðinu. 

Ógnir 

  • Mikið rask hefur verið í Surtarbrandsgili bæði af völdum manna og af náttúrulegum ástæðum. Halda þarf áfram að hafa eftirlit með svæðinu og koma í veg fyrir að fólk taki steingervinga. 
  • Berginu slútir víða fram og er hrunhætta til staðar

 Tækifæri 

  • Vinna þarf stjórnunar- og verndaráætlun.  
  • Tekist hefur að mestu að koma í veg fyrir að fólk fari án leyfis í gilið og taki þaðan steingervinga. Endurnýja þarf friðlýsingarskilmála fyrir náttúruvættið.
  • Auka þarf eftirlit enn frekar með svæðinu en sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Patreksfirði fer með umsjón með því. Náttúruupplifun, jarðminjar gera svæðið mjög áhugavert. 
  • Umhverfisstofnun og ábúendur á Brjánslæk hafa gert samning um opnun sýningar í tengslum við náttúruvættið. Stefnt er á opnun hennar sumarið 2016. 
  • Gert er ráð fyrir að svæðið fari af appelsínugulum lista þegar öllum aðgerðum er lokið, þ.e. gerð stjórnunar- og verndaráætluna, opnun sýningar á Brjánslæk og aukið við landvörslu.