Náttúra

Í Surtabrandsgili eru leifar tegundaríkustu skóga, sem fundist hafa í jarðlögum á Íslandi, í 12 milljóna ára gömlum setlögum. Flestar þær plöntur sem hafa verið greindar í Surtarbrandsgili hafa ekki fundist í setlögum annara þekktra svæða á Íslandi.  Plöntuleifarnar, laufblöð, aldin, fræ og frjókorn, hafa sest til í frekar grunnu stöðuvatni og grafist þar í botnsetið. Væntanlega hafa plönturnar vaxið meðfram vatns- og árbökkum í daladrögum þar sem grunnvatn stóð frekar hátt. Í vatninu var mikið af kísilþörungum sem féllu til botns og mynduðu ljósleita skán á öllum stærri flötum, einkum laufblöðum. Því eru flögur úr gilinu ljósar af kísilþörungum á annarri hlið, en dökkar á hinni.

Flestar þær trjátegundir sem mynduðu skóga landsins fyrir 12 milljónum ára eru útdauðar og skyldustu núlifandi tegundir þrífast á suðlægari breiddargráðum í tempruðum og heittempruðum lauf- og barrskógum. Meðal barrtrjáa má nefna þin, furu, greni, japansrauðvið, og vatnafuru. Af lauftrjám er meðal annars búið að bera kennsl á agnbeyki, anganvið, álm, birki, elri, fjórmiðju, hesli, hlyn, magnólíu, platanvið, lyngrós, sætblöðku, topp, túlípantré, valhnotu, víði, vænghnotu, þyrni og ösp.

Surtarbrandur

Surtarbrandur er myndaður úr plöntuleifum sem hafa kolast og pressast saman undan fargi hraunlaga, enda finnst hann nær alltaf á milli fornra hraunlaga. Jarðlögin eru frá síðari hluta nýlífsaldar, einkum míósen-tíma og eru yngri en 16-15 milljón ára. Setlög eru víða milli hraunlaga bæði vestanlands og austan. Rauð, frekar fínkornótt setlög eru frekar algeng, en þau eru talin forn jarðvegur, enda má víða sjá í þeim gömul gjóskulög. Gráleit sand- og völubergslög eru einnig algeng og eru þau að mestu leyti ár- og vatnaset.


Myndin sýnir einfalt jarðlagasnið af lögum í Surtarbrandsgili. Setlög með heillegum lífveruleifum, laufblöðum, aldinum og fræjum, eru að mestu úr siltsteini en steingervingar eru einnig í sandsteinslögum í gilinu. Jarðlagaeiningarnar þrjár sem geyma plöntusteingervinga eru auðkenndar með laufblöðum.