Inngangur
Einungis fyrirtæki sem til þess hafa fengið heimild mega flytja til landsins kælimiðla sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, svokölluð F-gös, sbr. efnalög nr. 61/2013 og ákvæði í reglugerð nr. 1066/2019 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Eftirlit með markaðsetningu á F-gösum er í höndum Umhverfisstofnunar.
Ástæða þess að takmarkanir hafa verið settar á markaðssetningu F-gasa er að þau hafa mikinn hnatthlýnunarmátt og töldu þjóðir á heimsvísu að grípa þyrfti í aðgerða til að sporna gegn losun þeirra út í andrúmsloftið til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum af þeirra völdum. Þessi aðgerð er sett fram í Kigalibreytingunni á Montrealbókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins og skyldar aðila til þess að draga úr notkun þessara efna.
Á síðasta ári tók gildi breyting á lögum nr. 129/2009 um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem skattur er lagður á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sem fluttar eru til landsins og er tollayfirvöldum falið að annast framkvæmdina. Skatturinn er lagður á samkvæmt innfluttu magni (í kg) og er mishár eftir hnatthlýnunarmætti viðkomandi efnis.
Framkvæmd og niðurstöður
Níu fyrirtæki hafa innflutningsheimildir fyrir kælimiðlum sem innihalda F-gös og ber þeim að skila upplýsingum um innflutning til Umhverfisstofnunar sbr. reglugerðinni um F-gös. Til að staðreyna að magn innflutnings sé hið sama og það sem úthlutað er á hverju ári fékk Umhverfisstofnun upplýsingar frá Tollgæslunni um tollafgreiðslu á kælimiðlum fyrir undangengið ár og bar þær saman við upplýsingar á vörureikningum sem stofnunin hefur undir höndum. Á árinu 2020 voru flutt inn alls 54,3 kílótonn koldíoxíðsjafngilda fyrir árið. Hins vegar voru kvótamörk fyrir heildarmagn á innflutum kælimiðlum F-gasa um 243,9 kílótonn koldíoxíðsjafngilda og var því einungis notað um 22% af leyfilegu innflutningsmagni. Þær upplýsingar sem fyrirtækin veittu um magn sem þau fluttu inn stóðust þeim upplýsingum sem stofnuninni barst frá Tollgæslunni. Eftirfarandi tafla sýnir tegund þeirra miðla sem fluttir voru inn undangengið ár og heildarmagn þeirra, en alls voru 14 tegundir fluttar inn.
Tafla 1. Yfirlit yfir tegund kælimiðla, hnatthlýnunarmátt (GWP) þeirra, magn miðlanna og magnið í koldíoxíðsjafngildum sem flutt var inn árið 2020 ásamt tollflokki.
Miðill | GWP | Innflutt magn [kg] | Innflutt magn [t CO2-eq] | Tollflokkur |
R134a | 1430 | 2184 | 3123 | 2903.3943 |
R227ea | 3220 | 140 | 451 | 2903.3949 |
R32 | 675 | 200 | 135 | 2903.3956 |
R404A | 3922 | 5551 | 21771 | 3824.7810 |
R407C | 1774 | 605 | 1073 | 3824.7811 |
R407F | 1825 | 1066 | 1945 | 3824.7812 |
R410A | 2088 | 550 | 1148 | 3824.7813 |
R422A | 3143 | 220 | 691 | 3824.7814 |
R422D | 2729 | 58 | 157 | 3824.7815 |
R448A | 1387 | 358 | 497 | 3824.7820 |
R449A | 1397 | 6161 | 8607 | 3824.7821 |
R452A | 2140 | 1178 | 2521 | 3824.7824 |
R507A | 3985 | 3000 | 11955 | 3824.7822 |
R508B | 13396 | 18 | 243 | 3824.7823 |
Samtals | 21289 | 54318 |
Við yfirlit gagnanna kom í ljós að rangur tollflokkur var gefin upp fyrir afgreiðsluna og gerði Umhverfisstofnun Tollgæslunni þess viðvart. Í einu tilvikinu þá var skatturinn ofgreiddur og í hinu tilvikinu þá var greitt minna en átti að gera.
Niðurstöður vöktunarinnar gefur til kynna að vel tekst að fara eftir þeim innflutningsheimildum sem gefnar voru út fyrir árið og útfösun miðlanna gengur hraðar ef til vill en ætlað er. Umhverfisstofnun heldur áfram að miðla upplýsingum um tollflokkun og skattaálagningu þessara kælimiðla enda ennþá nýleg aðgerð.