Rauðhólar, Reykjavík

Rauðhólar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 1974. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.

Stærð fólkvangsins er 130,2 ha.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

 

Rauðhólar að vetri

 

Auglýsing nr. 185/1974 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Svæðið er safn gervigíga og er vestasti hluti þess óraskaður en áður hafði verið gengið á gervigígana. Umhverfisstofnun hefur sinnt verkefnum á svæðinu, s.s. að slá lúpínu og tína rusl. Töluvert af reiðleiðum eru á svæðinu og Reykjavíkurborg hefur víða sett upp skilti við áningarstaði hestamanna. Enn má sjá minjar stríðsáranna inni á svæðinu, en þær hafa ekki verið merktar.

Veikleikar

Svæðið er mikið notað af hestamönnum yfir vetrartímann og hestastígar virðast vera að breikka og troðast út, sér í lagi þar sem jarðvegur er moldarkenndur eða pollar myndast í reiðstígum. Svæðið er mjög aðgengilegt og oft er losað rusl á bílastæðum og inni á svæðinu.

Ógnir

 • Mikið rusl safnast fyrir á svæðinu. 
 • Svæðið er á vatnsverndarsvæði og nálægt vatnstökusvæði. 
 • Enn er eitthvað um að fólki aki inn á svæðið og keðjur til að loka vegum séu virtar að vettugi. 
 • Reiðleiðum hefur verið haldið við en merkingar fyrir reið- og gönguleiðir vantar. 
 • Upplýsingaskilti eru í nokkuð góðu ástandi en fræðsluskilti vantar t.a.m. fyrir minjar. 
 • Töluvert er um að girðing sem ver svæðið að austanverðu sé brotin. 
 • Lúpína er komin inn á svæðið og sést hefur stök planta af tegundinni bjarnarkló. 

Tækifæri 

 • Gerð verndaráætlunar. 
 • Hreinsa þarf rusl af svæðinu reglulega.
 • Uppræta þarf bjarnaklóna og halda lúpínu í skefjum eins og frekast er unnt.
 • Auka þyrfti umsjón með svæðinu, sér í lagi yfir sumartímann
 • Merkja þyrfti gönguleiðir og reiðleiðir. 
 • Merkja þyrfti minjar í samráði við Fornleifavernd ríkisins. 
 • Auka þarf fræðslu og upplýsingar á svæðinu. 
 • Svæði er heppilegt til útivistar og hestamennsku svo dæmi séu tekin. 
 • Samstarf við framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar sjálfboðavinnu á friðlýstum svæðum. 
 • Fyrirhugað er að gerður verði umsjónarsamningur við Reykjavík. 
 • Hafin var vinna við úttekt á ástandi svæðisins á vegum borgarinnar ásamt kortlagningu á gróðurfari.
 • Útbreiðsla lúpínu verði kortlögð sérstaklega.

Stjórnunar- og verndaráætlun

Unnið er að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar, hér má lesa meira um þá vinnu ásamt samráðsáætlun og verk- og tímaáætlun.