Stök frétt

Mynd: Krystian Tambur - Unsplash
Stýrihópur um verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði í mars sl. hefur skilað áfangaskýrslu til ráðherra. 
Umhverfisstofnunar á fulltrúa í stýrihópnum en hlutverk hópsins er að rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins í ljósi áherslu á virka svæðisvernd í hafi (e. Other Effective Area-Based Conservation Measures, OECM) m.a. með hliðsjón af leiðbeiningum alþjóðastofnana og alþjóðasamninga. 
Á meðal verkefna hópsins er að rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins með tilliti til svæðisverndar, þar á meðal leiðbeininga alþjóðastofnana og alþjóðasamninga. Einnig er hópnum ætlað að draga saman fyrirliggjandi þekkingu um hafsvæðið við Ísland og gera tillögur að svæðum sem þurfa verndunar við og afmörkun þeirra. 
Matvælaráðuneytið hefur tillögur stýrihópsins nú til skoðunar. Næstu skref í starfi hópsins verða m.a. að skilgreina ferli við útnefningu nýrra verndarsvæða, m.a. í samráði við hagsmunaaðila, hverjir geta sett fram tillögur og með hvaða hætti. Einnig verður lokið greiningu á gildandi regluverki um stjórnun nýtingar nytjastofna sjávar og hvernig regluverkið samræmist viðmiðum um aðra virka svæðisvernd. 

Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn ljúki störfum í apríl nk.

Nánar um skýrsluna og skýrsluna sjálfa má finna á vef matvælaráðuneytisins.