Grunnafjörður

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt. Stærð friðlýsta svæðisins er 1393,2 hektarar.

Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.

Hvar er Grunnafjörður?

Grunnafjörður (Leirárvogar) er norðaustan við Akranes í Borgarfjarðarsýslu og tilheyrir Skilmanna-,Leirár- og Melahreppi. Þjóðvegur 1 liggur rétt við friðlandið. Til friðlýsta svæðisins teljast allar fjörur og allt grunnsævi innan Hvítaness og Súlueyrar. Landmegin markast friðlandið af Stórstraumsflóðmörkum og til þess teljast allar eyjar og sker á firðinum. Allt land innan friðlandsins er í einkaeigu.

Hvað er áhugavert?

Víðlendar leirur eru í Grunnafirði og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður.  

Náttúruminjar

Friðlandið í Grunnafirði býr yfir fjölmörgum vistkerfaþjónustum. Svæðið hefur að geyma frjósaman jarðveg sem ásamt öðrum þáttum gerir svæðið að hentugu búsvæði fyrir villtar plöntur og dýr. Í Grunnafirði fer því fram viðhald á líffræðilegum og erfðafræðilegum fjölbreytileika. Á svæðinu eru stundaðar veiðar og er nýting landsins þó nokkur. Einnig má nefna að svæðið býr yfir fjölbreytni í náttúrulegum vistkerfum sem bjóða upp á tækifæri til að nota afurðir til skreytinga. Friðlandið hefur einnig mikið upplýsingagildi en það einkennist af fallegum landslagsþáttum, fjölbreytileika í landslagi sem býður upp á afþreyingarmöguleika t.a.m. hestamennsku.  Grunnafjörður hefur að geyma menningarleg, listræn, andleg og söguleg gildi en margar þjóð- og munnmælasögur eru til um svæðið ásamt því að náttúra svæðisins hefur mikið vísinda- og menntunargildi.

Sérstaða Grunnafjarðar felst m.a. í því hversu víðáttumikið svæðið er og að þar finnast mörg stór svæði af mismunandi leirugerðum en sandmaðksleirur eru ríkjandi á svæðinu. Af þeim dýrategundum sem eru algengastar á svæðinu má nefna; rykmý, mottumaðk og burstaorma, sandmaðka, ána, leiruskera, marflær, þanglýs, þörunga og kræklinga. Fiskitegundir sem finnast á svæðinu eru lax, urriði, bleikja, koli (sandkoli), hrognkelsi (grásleppa og rauðmagi), ufsi, sandsíli, þorskaseiði og selir. Einnig hefur orðið vart við mink og ref.

Grunnafjörður er mikilvægur fyrir margar tegundir fugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægt fyrir margæs, rauðbrysting og sanderlu. Um 25% margæsarstofnsins hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna bæði vor og haust og um 1% rauðbrystingsstofnsins.  

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur; byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda einnig æðarfuglar til.  Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Í fuglatalningum hefur orðið vart við nokkrar tegundir á válista s.s. brandönd, branduglu, grágæs, hrafn og svartbak en einnig er vitað að á svæðinu verpir hafarnarpar. Aðrar algengar fuglategundir á svæðinu eru m.a. dílaskarfar, toppendur, heiðlóur, jaðrakanar, sílamáfar, hvítmáfar og hettumáfar en einnig hafa fálkar og smyrlar sést.   

Menningarminjar

Þó nokkrar munnmæla-, þjóð-, og jafnvel íslendingasögur tengjast Grunnafirði. Má t.a.m. nefna að þess er getið í Heimskringlu að menn hafi komið saman við Arkarlæk til þess að skipuleggja bardagann við Hörð Hólmverja en þá var þingstaður á bökkum Laxár sem gefur til kynna að fjörðurinn hafi ekki verið jafn opinn og hann er í dag. Einnig eru sögusagnir um að Egill Skallagrímsson hafi haft smiðju sína þar sem nú er Skipanes.

Margir hafa í gegnum aldirnar látið lífið á leirunum vegna kviksyndis, sterkra strauma eða dottið í gegnum vök að vetri til. Gömul þjóðleið yfir fjörðinn var um Skorholt en þaðan lá leið frá héraði og niður á Akranes. Einnig var algengt að farið væri yfir fjörðinn á fjöru, frá Skipanesi og yfir á Arkarlæk. Á Akranesi er steinn sem stendur aftan við slippinn en hann var notaður til viðmiðunar þegar farið var yfir fjörðinn. Þegar sjór náði í vissa hæð á steininum þá var tími til að halda heim frá Akranesi.

Aðgengi

Allt land innan friðlandsins er í einkaeigu og að því liggja 11 bæir. Aðgengi að friðlandinu er takmarkað og engar gönguleiðir hafa verið merktar. Skólarnir á svæðinu ásamt háskólum nýta sér svæðið til vettvangsferða og verkefnavinnu. Á tímabilinu 15.apríl til 15.júlí eru heimsóknir í eyjar og sker, aðrar en þær sem tengjast hefðbundnum nytjum, óheimilar. Að þessu tímabili undanskildu er hægt að heimsækja friðlandið allan ársins hring með leyfi landeigenda.