Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Reyjanesfólkvangur - breyting

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur árið 1975, sbr. auglýsing nr. 520/1975 í Stjórnartíðindum að beiðni Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Grindavíkur, Garðahreppur, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps í samræmi við þágildandi náttúruverndarlög nr. 47/1971. Árið 2011 bættist Sveitarfélagið Vogar við fólkvanginn. Njarðvíkurhreppur og Selvogshreppur hafa síðan sameinast öðrum sveitarfélögum. Samvinnunefnd eftirstandandi sveitarfélaga hefur farið með stjórn fólkvangsins og hefur hún verið skipuð einum fulltrúa frá hverjum aðila.
 Í apríl sl. tilkynntu þrjú sveitarfélög, Reykjavíkurborg, Sveitarfélagið Vogar og Kópavogsbær, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu að þau hyggist segja sig úr samstarfinu um Reykjanesfólkvang. Í kjölfarið óskaði ráðuneytið eftir því við Umhverfisstofnun að hún kanni afstöðu annarra sveitarfélaga sem koma að fólkvanginum til úrsagnarinnar. Í fundargerðum stjórnar Reykjanesfólkvangs, dags. 22. mars, 18. apríl og 26. júní 2024 er fært til bókar að auk ofantalinna þriggja sveitarfélaga munu Reykjanesbær og Seltjarnarnesbær einnig segja sig úr fólkvanginum. Mörk fólkvangsins liggja utan marka ofantalinna sveitarfélaga. Grindavíkurbær, Garðabær og Hafnarfjarðarbær munu halda áfram í samvinnunefnd um stjórn fólkvangsins og annast umsjón hans og rekstur. 

Samkvæmt ákvæðum 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 kynnir Umhverfisstofnun hér með áform um breytingar á friðlýsingu Reykjanesfólkvangs nr. 520/1975 er snýr að skipun stjórnar fólkvangsins þar sem ofangreind sveitarfélög munu falla út úr stjórn fólkvangsins. 

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 20. desember 2024.  Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar www.ust.is, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
 Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé þess óskað í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg M. Bjarnadóttir, ingibjorg.m.bjarnadottir@umhverfisstofnun.is og René Biasone, rene.biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

Senda inn athugasemd