Stök frétt

Eldhús og matsalir Landspítalans (ELM) er viðamikil starfsemi sem framleiðir og selur 4.500 máltíðir á dag fyrir starfsfólk, gesti og sjúklinga spítalans. Svansvottunin nær til tíu matsala á höfuðborgarsvæðinu og miðlægs eldhúss við Hringbraut. ELM er fyrsta fyrirtækið í veitingarekstri sem er svansvottað samkvæmt endurskoðuðum og hertum viðmiðum Svansins.

Meðal þeirra atriða sem Svansvottaður veitingarekstur þarf að uppfylla er að lágmarka orkunotkun sína, flokka úrgang bæði frá gestum og rekstri, notast við umhverfisvottuð hreinsiefni, skipta út einnota umbúðum, velja frekar sparperur og bjóða gestum upp á úrval af lífrænt vottuðum matvælum. 

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra neyslu í samfélaginu svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Svansleyfishafar á Íslandi eru nú 29 talsins, þar af eru þrjú fyrirtæki í veitingarekstri. 

Landsspítalinn hefur tekið markviss skref að undanförnu til að gera starfsemina umhverfisvænni og hefur meðal annars unnið umhverfisstefnu fyrir spítalann. ELM hefur auk þess lyft grettistaki til að sporna við matarsóun, má þar nefna að skoðað var hvaða mat var oftast leift og matseðillinn endurhannaður út frá því. Árangurinn stóð ekki á sér og hendir spítalinn nú 40% minna af mat sem er minnkun uppá 20 tonn á ársgrundvelli. 

Starfsmenn Svansins hafa tekið eftir auknum áhuga hjá fyrirtækjum í veitingarekstri sem mun eflaust stuðla að auknu framboði á lífrænum og umhverfisvottuðum vörum.