Stök frétt

Listasamkeppni Svanins, Nordic Art Insight, hefst í dag. Tilgangur keppninnar er að koma af stað umræðu um sjálfbæra neyslu. Fyrstu verðlaun eru 100.000 sænskar krónur.

Við viljum sjá listaverk sem hreyfa við fólki, skemmtir því eða vekur það til umhugsunar. Listamenn allra tíma hafa haft mótandi áhrif á samfélagið og opnað augu manna fyrir nýjum áskorunum. Við viljum því skora á listamenn dagsins í dag að leggja sitt af mörkum, við verðum ekki nægilega vör við nærveru þeirra í umhverfisumræðunni. Eitt listaverk getur sagt meira en þúsund orð, segir forstjóri Svanins í Svíþjóð, Ragnar Unge.

Ein af stærstu áskorunum nútímans er hvernig við eigum að koma á sjálfbæru neyslumunstri sem tekur tillit til áskorana í umhverfismálum og gætir réttlætis í auðlindanotkun á heimsvísu.

Í samkeppninni verður listamaðurinn að lýsa hvernig verkið er unnið út frá umhverfissjónarmiði. Líkt og umhverfisvottanir skoða allan lífsferilinn þá verður listamaðurinn að lýsa ferlinu frá vali á hráefnum, allt til úrgangsmyndunar og endurvinnslu á verkinu sjálfu.

Nemum við listgreinaskóla eða myndalistaskóla sem hafa náð 18 ára aldrei svo og starfandi listamönnum er velkomið að taka þátt. Verkum má skila inn á tímabilinu 15. mars til 31. maí en þá mun dómnefnd velja sex verk sem komast í úrslit og loks getur almenningur kosið vinningshafa úr hópi þeirra verka sem komust í úrslit. Tilkynnt verður um sigurvegara samkeppninnar á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í Umeå og verkið verður einnig sýnt í tengslum við að Umeå hefur verið útnefnd sem ein af menningarborgum Evrópu 2014.

Nánari upplýsingar og svör við algengum spurningum.