Heimsókn ráðherra og fundir á svæðinu

Dagana 26.– 27. september 2011 heimsótti umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir,  Látrabjarg  og nágrenni til að hitta landeigendur og heimamenn vegna vinnu að mögulegri friðlýsingu svæðisins sem þjóðgarðs. Haldnir voru sex fundir á sex stöðum. Var tilgangur þeirra að ræða hvað fælist í stofnun þjóðgarðs fyrir landeigendur, sveitarstjórn og aðra íbúa svæðisins, m.a. hvert markmið friðlýsingarinnar væri, hvaða lagaleg áhrif hún hefði, og hver væri hinn samfélagslegi ávinningur.

Frá umhverfisráðuneytinu komu ásamt ráðherra Guðríður Þorvarðardóttir sérfræðingur á sviði náttúruverndar og Skúli Oddsson bílstjóri. Frá Umhverfisstofnun komu Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri, Anna Kristín Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði friðlýsinga, og Hákon Ásgeirsson, nýráðinn sérfræðingur stofnunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum. Ásthildur Sturludóttir, sveitastjóri Vesturbyggðar tók einnig þátt í fundhöldunum, sem og Gísli Már Gíslason formaður landeigendafélags Bjargtanga.

Gísli Már segir sögur af lífinu í Látravík á fyrri tímun.

Fyrsti fundurinn var haldinn í Breiðavík og tóku þar á móti hópnum Keran Stueland Ólason og Birna Mjöll Atladóttir, eigendur og staðarhaldarar.  Snæddur var hádegisverður og friðlýsingartillagan rædd. Keran og Birna vilja að land þeirra verði friðlýst sem hluti af þjóðgarði.  Keran leggur áherslu á að fyrst verði unnið að friðlýsingu Breiðavíkur, Látravíkur og Keflavíkur áður en fleiri jarðir tengist þjóðgarði.

Eftir fund í Breiðavík var haldið út á Látrabjarg þar sem Gísli Már fræddi gestina um svæðið. Þá var haldinn stuttur fundur heima hjá Kristni Guðmundssyni í Ásgarði, Látravík. Gísli  Már og Kristinn voru einu landeigendur staddir Látrum og áttum við góðan fund með þeim. Gísli Már ætlar að kalla saman fund með stjórn landeigendafélagsins fljótlega og verða Anna Kristín og Hákon boðuð á þann fund.

Ekið var frá Látrum um kl. 16 og næsti fundur var í safninu á Hnjóti. Þar voru mættir um 12 manns, bæði landeigendur á svæðinu og aðrir heimamenn. Fundurinn fór vel fram og voru fundarmenn jákvæðir gagnvart hugmyndinni um stofnun þjóðgarðs. Áhersla var lögð á að ná samkomulagi við landeigendur Látra áður en svæðið yrði stækkað.

Á Patreksfirði var fundur kl. 18:30 í Sjóræningjahúsinu og mættu um 30 manns. Ásthildur bæjarstjóri kynnti starf nefndar um framtíðarskipulag(deiliskipulags) Látrabjargs og Anna Kristín hélt framsögu um tilgang, eðli og áhrif friðlýsinga, muninn á friðlandi og þjóðgarði, og hvaða áhrif stofnun þjóðgarðs gæti haft á uppbyggingu innviða og atvinnusköpun á svæðinu. Hún lagði höfuðáherslu á það að þjóðgarður yrði ekki stofnaður nema með vilja, áhuga og þátttöku landeigenda og sveitarfélags. Sérstaka samninga yrði að gera við hvern og einn landeigenda og þeir gætu verið ólíkir eftir atvikum. Mikil umræða skapaðist um friðlýsinguna. Fundargestir voru að mestu jákvæðir, en margar spurningar vöknuðu og einhverjir voru tortryggnir, m.a. vegna fyrri reynslu af samskiptum við stjórnvöld.

Að morgni 27. sept. var fundur með bæjarstjórn Vesturbyggðar þar sem rædd voru næstu skref í friðlýsingarferlinu. Ákveðið var að halda fundi í Reykjavík með landeigendum sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu uppúr miðjum október. Einnig var ákveðið að halda fyrirlestraröð í Sjóræningjahúsinu á svo kölluðum súpufundum. Þar er ætlunin að fræða heimamenn enn frekar um starfsemi Látrastofu og hvað fellst í fyrirhugaðri friðlýsingu.

Fundur á Rauðasandi Nefnd um framtíðarskipulag Látrabjargs fundaði í hádeginu á veitingastaðnum Þorpinu. Í nefndinni sitja Ásthildur Sturludóttir fyrir hönd bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Gísli Már Gíslason fyrir hönd landeigendafélags Bjargtanga, Keran Stueland Ólason fyrir hönd Breiðuvíkur Jón Þórðarson fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða, og Anna Kristín og Hákon Ásgeirsson fyrir hönd Umhverfisstofnunar. Þar var einnig rætt um framhald friðlýsingarinnar og nefndarmönnum greint frá niðurstöðu fundar með bæjarstjórninni. Til stendur að fjölga í nefndinni, bæta við fleiri fulltrúum landeigenda á Látrum, sem og fulltrúum úr bæjarstjórn Vesturbyggðar.

Síðasti fundur var svo haldinn á Rauðasandi á kaffihúsinu sem rekið er af Kjartani Gunnarssyni og konu hans Sigríði Snævarr. Þar var vel mætt eða um 25 manns. Þar voru gagnrýnisraddir líkt og á Patreksfirði en flestir voru jákvæðir og skapaðist skemmtileg umræða um friðlýsinguna,. Fundarhöldin þessa tvo daga gengu vel, fundirnir voru ágætlega sóttir og umræður fjörlegar. Var þátttaka umhverfisráðherra í þeim afar mikilvæg. Ráðherra er mjög áhugasamur um verkefnið og leggur áherslu á að hún muni gera það sem hún geti til að það megi fram að ganga.