Frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið hreindýrakvóta þessa árs að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun. Heimilt verður að veiða allt að 1300 dýr á árinu, 848 kýr og 452 tarfa.

Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu. Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda.

Veiðitími tarfa er frá 1. ágúst til og með 15. september, en þó getur Umhverfisstofnun heimilað veiðar á törfum frá og með 15. júlí. Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til 20. september.

Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.

Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna.

Verð fyrir veiðileyfin eru óbreytt frá í fyrra 135.000 kr. fyrir tarf og 80.000 kr. fyrir kú. Úthlutuð veiðileyfi skulu greiðast að fullu eigi síðar en 15.apríl.

Opnað verður fyrir umsóknir á næstu dögum en umsóknum skal skilað rafrænt á vef Umhverfisstofnuna og er umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi til og með mánudeginum 29. febrúar.

Hér að neðan má sjá hvernig veiðikvóti skiptist milli svæða og kynja. Á svæðum 7, 8 og 9 verður heimilt að veiða samtals 135 kýr í nóvember og þarf að velja um það í umsóknarferlinu.

 Kvóti 2016

Veiðisvæði
 Kýr  Tarfar Samtals
 1  190  65  255
 2  90  60  150
 3  40  40  80
 4  28  26  54
 5  30  41  71
 6  90  80  170
 7  260(60)*  95  355
 8  80(40)*  30  110
 9  40(35)*  15  55
 Samtals  848  452  1300
 

* þar af kýr sem veiða má í nóvember