Frétt

Umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi er til og með sunnudagsins 15. febrúar. Undanfarin áratug hefur orðið sprenging í umsóknarfjölda en síðastliðin þrjú ár virðist ákveðnu jafnvægi náð. Tæplega 3600 veiðimenn hafa sótt um hreindýraveiðileyfi síðastliðin tvö ár en þegar mest var fór umsóknarfjöldinn í 4270 árið 2012. Nú í ár hafa rúmlega 2900 borist og tveir dagar eftir af umsóknarfrestinum sem bendir til að umsóknarfjöldinn verði svipaður og síðastliðin tvö ár. Hinsvegar hefur sú breyting orðið að umsóknum um tarfa miðað við kýr hefur hlutfallslega fjölgað. Alls eru 1412 hreindýraveiðileyfi í boði, þar af 782 kýr og 630 tarfar. Veiðileyfi á kú kostar 80.000,- en tarf 135.000,-

Ekki er útilokað að sú staða komi upp í fyrsta skipti í mörg ár að umsóknir um veiðileyfi á kýr verði færri en veiðileyfin sem eru í boði á sumum svæðum.

Til þess að umsóknir teljist gildar þurfa veiðimenn að hafa svonefnt B-skotvopnaleyfi í gildi og vera handhafar veiðikorts. Þeir sem sækja um í fyrsta skipti þurfa því að senda Umhverfisstofnun staðfestingu á B-leyfinu.

Greiða þarf veiðileyfið að fullu í síðasta lagi 15. apríl

Stefnt er á að draga úr umsóknum laugardaginn 21. febrúar. Að því loknu fá veiðimenn sendan tölvupóst með niðurstöðunni en vakin er athygli á að sú breyting hefur verið gerð á greiðslufyrirkomulagi leyfisins að nú þarf að greiða allt veiðileyfið ekki síðar en 15. apríl. Staðfestingargjald heyrir sögunni til. Þessi breyting er til mikilla bóta. Síðan umsóknarfjöldinn jókst hefur hlutfall þeirra veiðimanna sem skila inn veiðileyfinu farið vaxandi. Það hefur haft þær afleiðingar að úthluta hefur þurft miklum fjölda eftir 30. júní þegar lokagreiðslan fór fram. Þegar komið er fram á sumar er hætt við að veiðimenn sem ekki fengu úthlutun í fyrstu atrennu hafi skipulagt sumarið í eitthvað annað en hreindýraveiðar og þyggi ekki veiðileyfið þegar það býðst svona seint. Með þessu nýja fyrirkomulagi verður hægt að úthluta fleiri leyfum í lok apríl.

Hægt er að sækja um veiðileyfi á skilavef Umhverfisstofnunar á umhverfisstofnun.is en þeir sem lenda í vandræðum með að skila umsókn á skilavefnum ættu að hafa það í huga að hægt er að senda tölvupóst með umsókn á ust@ust.is, láta kennitölu fylgja og tilgreina hvað sótt er um. Umsóknarfrestur rennur út í lok sunnudags.

Allir sem fá úthlutað hreindýraveiðileyfi þurfa að standast skotpróf en heimilt er að reyna þrisvar sinnum við skotprófið. Standist menn ekki skotprófið er veiðileyfinu úthlutað til næsta manns á biðlista.