Frétt

Undanfarna daga hafa veiðimenn fengið senda tilkynningu frá Umhverfisstofnun þar sem þeir eru beðnir um að skila veiðiskýrslu fyrir árið 2014. Alls fá 19.543 veiðimenn aðgangsorð til að skila veiðiskýrslu. Af þeim þurfa 12.087 að skila skýrslu þar sem þeir voru veiðikorthafar á síðastliðnu ári. Allir veiðikorthafar þurfa að skila skýrslu hvort sem þeir fóru til veiða á árinu eða ekki. 

Veruleg aukning hefur orðið á undanförnum árum í rafrænum skilum. Um 96% veiðimanna skila skýrslunni rafrænt á skilavef Umhverfisstofnunar. Einungis 857 veiðimenn eru ekki með tölvupóst og fá senda veiðiskýrslu á pappírsformi. Bjarni Pálsson, teymisstjóri veiði- og verndarteymis hefur í gegnum árin fylgst með breytingum á rafrænum skilum sem hófust 1999.  

Endurnýjun veiðikortsins kostar 3.500,- ef skýrslunni er skilað fyrir 1. apríl en eftir það hækkar gjaldið í 5.000,-. Þar af leiðandi er hagkvæmast að skila skýrslunni sem fyrst. Hægt er að skila veiðiskýrslum á vef Umhverfisstofnunar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig pappírsflóðið hefur minnkað í gegnum árin þökk sé rafrænum skilum.

 

   
Bjarni Pálsson, með 16.000 pappírsskýrslur
sem senda þurfti veiðimönnum í janúar 2000. 
Bjarni Pálsson, með 857 veiðiskýrslur sem 
sendar verða veiðimönnum í janúar 2015. 
Varla er hægt að tala um pappírsflóð lengur.