Frétt

Umhverfis- og auðlindaráðherra úthlutar fé til rannsókna af tekjum vegna sölu veiðikorta í samræmi við lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna á stofnum villtra dýra sem heimilt er að veiða. Skriflegar umsóknir skulu berast ráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík og með tölvupósti á postur@uar.is, merktar Veiðikortasjóður 2013, fyrir 15. desember 2013. 

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að skila inn umsókn á sérstöku umsóknareyðublaði sem finna má á hér að neðan. 

Í umsókn um styrk úr Veiðikortasjóði skal umsækjandi greina frá efni og afmörkun fyrirhugaðra rannsókna, hverjir koma að rannsóknunum, skipulagi þeirra og áætluðum tímamörkum ásamt upplýsingum um menntun og/eða fyrri rannsóknir. Skilyrði er að umsækjendur, sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum hafi skilað skýrslu um viðkomandi rannsóknir, til að geta hlotið styrk á ný. 

 Til úthlutunar eru tekjur af sölu veiðikorta 2013. 

Konur jafnt sem karlar eru hvött til að senda inn umsóknir. Ráðuneytið stefnir að því að úthluta styrkjum eigi síðar en 31. janúar 2014, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og ráðgjafanefndar. 

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í hyggju að endurskoða fyrirkomulag úthlutunar veiðikortasjóðs. Mun sú vinna hefjast í byrjun næsta árs og verða unnin í samráði við þá sem lög um villt dýr gera ráð fyrir og fagstofnanir ráðuneytisins.