Frétt

Um 900 veiðimenn eiga eftir að fara í skotpróf vegna hreindýraveiða en alls munu 1229 veiðimenn halda til hreindýraveiða í haust. Á síðasta ári tóku gildi lög um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða og eru prófin í gangi þessa dagana hjá öllum skotfélögum á landinu. Eins og staðan er í dag hafa rúmlega 300 veiðimenn lokið prófinu og því nálægt 900 veiðimenn sem eiga eftir að þreyta prófið. 

Lokafrestur til þess að taka skotprófið er 30. júní og því má reikna með að mikil örtröð verði á skotvöllum landsins næstu daga. 

Af öllum teknum prófum eru um 20% fallpróf, en á síðasta ári var fallhlutfall allra tekinna prófa um 30%. Það eru því umtalsvert færri sem falla á prófinu þetta annað ár sem prófið er haldið. Veiðimenn hafa þrjár tilraunir til þess að ná prófinu en afar fáir féllu í öllum þremur tilraununum á síðasta ári, eða um 2%. 

Umhverfisstofnun vill hvetja hreindýraveiðimenn til þess að fara sem fyrst í próf og hafa tímanlega samband við skotfélag sem býður upp á skotpróf og panta tíma. Alls eru 22 aðilar á landinu sem bjóða upp á skotpróf og 70 manns sem starfa sem prófdómarar.