Menning og saga

Bárðar saga Snæfellsáss

„Dumbur hefir konungur heitið. Hann réð fyrir hafsbotnum þeim er ganga norður um Helluland og nú er kallað Dumbshaf og kennt var við Dumb konung. Hann var kominn af risakyni í föðurætt sína og er það vænna fólk og stærra en aðrir menn en móðir hans var komin af tröllaættum og brá því Dumbi í hvorutveggju ætt sína því hann var bæði sterkur og vænn og góður viðskiptis og kunni því að eiga allt sambland við mennska menn. En um það brá honum í sitt móðurkyn að hann var bæði sterkur og stórvirkur og umskiptasamur og illskiptinn ef honum eigi líkaði nokkuð. Vildi hann einn ráða við þá er norður þar voru enda gáfu þeir honum konungsnafn því að þeim þótti mikil forstoð í honum vera fyrir risum og tröllum og óvættum. Var og hann hinn mesti bjargvættur öllum þeim er til hans kölluðu. Hann tók tólf vetra konungdóm. Hann nam í burtu af Kvenlandi Mjöll, dóttur Snæs hins gamla, og gekk að eiga hana. Hún var kvenna fríðust og nær allra kvenna stærst þeirra sem mennskar voru."

Svo hefst Bárðar saga Snæfellsáss en hana má lesa í heild sinni á vefnum hjá Netútgáfunni.

Búseta

Frá stofnun þjóðgarðsins hefur skráning búsetusögu bæja á svæðinu verið áformuð. Árið 2010 hófst vinna við skrásetningu og merkingu bæja á Öndverðarnesi og er fyrirhugað að halda því verkefni áfram og skrá búsetusögu allra bæja í þjóðgarðinum. Ýmsar heimildir eru til um búsetu fólks og lífsmáta á fyrri tíð og eru það meðal annars kirkjubækur, sýslu- og sóknarlýsingar og bækur eins og kirkjur undir jökli, Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Kirkjur

Um miðja 13. öld fór að lifna yfir fiskveiðum við Ísland og er líklegt að þá hafi fólki tekið að fjölga undir Jökli. Kirkja var á Ingjaldshóli fyrir 1200 og ný kirkja var reist árið 1317 eða 1318. Kirkjan var snemma þriðja stærsta kirkja landsins á eftir dómkirkjunum á Hólum og í Skálholti. Ber það vitni um að fjölmennt hafi verið í byggðunum þar í kring, a.m.k. hluta úr árinu. Kirkjur voru einnig á Einarslóni og Saxhóli og bænhús á Öndverðarnesi fram á miðja 16. öld.

Sjósókn

Útræði var fyrr á öldum víða undir Jökli og minjar frá þeim tíma eru vel aðgengilegar. Á mörgum stöðum er lending hættuleg og aðstaða erfið svo að þar lagðist sjósókn af þrátt fyrir nálægð við góð fiskimið. Útgerðin var árstíðabundin og því breytilegt hversu margir bjuggu í héraðinu. Líklega er Dritvík þekktasta verstöðin.Þar var um hríð stærsta vorútver landsins og reru þaðan oft 40 til 60 skip með 200 til 600 vermönnum. Á 19. öld lögðust útverin af vegna breyttra veiðihátta og verkunaraðferða. Með nýrri tækni í útgerð og breyttum lifnaðarháttum urðu aðstæður aðrar og vegur þorpanna jókst.

Þéttbýlisstaðirnir yst á Snæfellsnesi, Hellissandur, Rif og Ólafsvík, eru allir gamlir útgerðar- og verslunarstaðir. Enn þann dag í dag eru þetta miklir útgerðarstaðir og mannlíf þar blómlegt.

Söguöld

Vestasta hluta Snæfellsness er ekki oft getið í fornritum en þá helst í tengslum við skreiðarflutninga undir Jökli. Bárðar saga Snæfellsáss er þekktasta fornsagan sem gerist á þessu svæði en hún þykir full-ævintýraleg og er ekki talin áreiðanleg sem heimild. Vitað er um bæjarrústir frá landnámstíð, t.d. rústir bæjanna á Forna-Saxhóli, Berutóftir og Írskubúðir. Fyrir ofan Gufuskála er fjöldi fiskbyrgja sem enginn veit hverjir hlóðu en þau eru talin vera 500–700 ára gömul og elstu minjar um sjávarútgerð á Norðurlöndum. Önnur kenning um byrgin er sú að þau hafi verið bænastaðir írskra manna.