Lega og landslag

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er vestast á Snæfellsnesi og flatarmál hans er um 170 km2. Að sunnan liggja mörk hans um austurjaðar Háahrauns í landi Dagverðarár og að norðan á austurmörkum Gufuskálalands. Jökulhetta Snæfellsjökuls er innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn hefur þá sérstöðu meðal íslenskra þjóðgarða að vera sá eini með minjar frá útræði fyrri alda.

Strönd Snæfellsness er fjölbreytileg þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi um varptímann. Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem runnið hafa frá Snæfellsjökli eða eldvörpum á láglendi. Hraunin eru víðast þakin mosa en inn á milli má finna fallega, skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri. Láglendið á sunnanverðu Snæfellsnesi er forn sjávarbotn sem risið hefur frá því ísöld lauk. Hamrabeltin upp af láglendinu eru því gamlir sjávarhamrar.

Snæfellsjökull gnæfir tignarlegur yfir umhverfinu og greinilega má sjá hvernig hraunstraumar og hraunfossar hafa runnið niður eftir hlíðum hans. Undirfjöll hans, svo sem Hreggnasi, Geldingafell og Svörtutindar, eru margbreytileg að lögun. Eysteinsdalur gengur upp frá láglendinu að norðanverðu en þar er komið í annað landslag, dal girtan fjöllum sem kalla á göngufúsa fætur. Ofar í landinu og nær Jökulhálsi eru vikurflákar og land sem er nýlega komið undan jökli. 

Nokkrir fallegir fossar eru á svæðinu. Klukkufoss er við rætur Hreggnasa og er stuðlaberg allt um kring. Nokkru austar, í Blágili, falla tveir fossar í einn hyl og hafa þeir verið nefndir Þverfossar.