Jarðfræði

Jarðfræði Snæfellsness er afar fjölbreytt og jarðmyndanir eru frá nær öllum tímabilum í jarðsögu Íslands. Eldstöðvakerfið sem kennt er við Snæfellsjökul er sterk landslagsheild og sýnir menjar eftir einstæð eldsumbrot, bæði frá síðasta jökulskeiði og eftir að ísöld lauk. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1800 árum en eldstöðin er talin vera virk ennþá. Kerfið er u.þ.b. 30 km langt og nær frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og jafnvel lengra en yfir 20 hraun tilheyra kerfinu. Lífæð eldstöðvakerfisins er kvikuþró sem liggur á nokkurra kílómetra dýpi undir jöklinum sjálfum. 

Í og við þjóðgarðinn ber mest á jarðmyndunum frá síðasta jökulskeiði og nútíma. Fjöllin norðan Snæfellsjökuls eru úr móbergi og hafa myndast við gos undir jökli eða í sjó. Svalþúfa er líklegast austurhluti gígs sem gosið hefur í sjó og Lóndrangar gígtappar. Hraun eru áberandi í landslagi þjóðgarðins, bæði úfin apalhraun og sléttari helluhraun. Stór hluti þeirra hefur runnið úr Snæfellsjökli, bæði úr toppgígnum og úr gígum í hlíðum fjallsins. 

dropasteinar

Hraunmyndanir eru margbreytilegar og fallegar og er svæðið auðugt af hellum. Ferðamönnum er eindregið ráðið frá því að fara í þá nema í fylgd kunnugra. Fólki getur stafað hætta af hruni í sumum hellanna og í öðrum geta verið viðkvæmar hraunmyndanir. Boðið er upp á ferðir með leiðsögn í Vatnshelli (hlekkur á Vatnshellissíðu) á vegum þjóðgarðsins. Á láglendi eru eldvörpin Purkhólar, Hólahólar, Saxhólar og Öndverðarneshólar og umhverfis eru hraun sem runnið hafa úr þeim.