Stök frétt

Mynd: Björn Oddsson

Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum.

 Meðfylgjandi tafla sýnir ráðleggingar um viðbrögð við loftmengun af völdum eldgoss. Ráðleggingarnar miða við að dvalið sé í 10-15 mínútur í loftmenguninni. Sé dvölin lengri má búast við meiri heilsufarsáhrifum. Tilgangur þessara leiðbeininga er m.a. að tryggja að dagleg starfsemi geti gengið sinn vanagang, eins og frekast er unnt, án þess að skaða heilsu fólks.

Sem dæmi, ef styrkur SO2 er 700 µg/m3, sem er tvöfalt yfir heilsuverndarmörkum, má lesa úr töflunni að eftir 10-15 mínútna dvöl í menguðu lofti mætti líklega búast við einkennum hjá viðkvæmum einstaklingum. Fólk gæti ferðast til og frá vinnu og skóla. Skólastarf færi að mestu fram með eðlilegum hætti en börn ættu ekki vera að leik utandyra.

Í mengun yfir 14.000 µg/m3 ætti enginn að vera á ferðinni og ráðlegt væri að fella niður skólastarf. Öll starfsemi sem ekki er lífsnauðsynleg ætti að stöðva tímabundið. Viðbragðsaðilar sem þurfa að vinna útivið þurfa að bera gasgrímur.

Myndin sýnir staðsetningar mælistöðva sem mæla SO2 á suðvesturhorni landsins:

Hægt er að sjá þær mælistöðvar sem mæla SO2 hverju sinni með velja SO2 sem mengunarefni efst í vinstra horni á loftgæði.is. Fleiri mælar verða settir upp eins fljótt og mögulegt er. Mælingar á handmælum eru einnig á fleiri stöðum á vegum Almannavarna og Veðurstofu Íslands.

Skammtímaáhrif vegna SO2

Áhrif SO2 á heilsufar

Mest af SO2 sem berst í efri öndunarveg líkamans frásogast þar í gegnum slímhúðina. Þar umbreytist það í lifrinni og skolast út með þvagi. Mjög lítið safnast fyrir í líkamanum og skaða á innri líffærum hefur ekki verið lýst. Einnig framleiða bakteríur í nefi og koki ýmis efni sem binda SO2 og gera það óvirkt. Þegar mengun er yfir heilsuverndarmörkum er því mikilvægt að anda rólega í gegnum nefið og forðast áreynslu. Börn eiga ekki að sofa úti í vagni þegar SO2 mengun er viðvarandi eða á meðan mengunartoppur varir og allir eiga að forðast áreynslu utan dyra. Viðkvæmir hópar ráðfæri sig við heilsugæsluna varðandi frekari ráðgjöf.

Áhrif loftmengunar á heilsu eru háð þeim tíma sem fólk dvelur í menguninni. Ef dvalið er lengur en 10─15 mínútur í mengun má búast við meiri áhrifum á heilsu en taflan segir til um.

Langtímaáhrif SO2 mengunar

Rannsóknir benda til að langtímadvöl í SO2 menguðu andrúmslofti geti valdið þrálátum öndunarfæraeinkennum, svo sem hósta, nefrennsli og astma. Þá sýna margar rannsóknir að mengunin getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstrum og að börn fæðist fyrir tímann. Engin merki eru um að SO2 mengun geti valdið krabbameini og óljóst er hvort mengun geti valdið hækkuðum blóðþrýstingi og ófrjósemi.

Nauðsynleg útivera í mikilli mengun  > 2600  µg/m3.

 Ef fólk þarf nauðsynlega að fara á milli húsa þegar mengun er viðvarandi sem veldur óþægindum  er gagnlegt að hafa blautan klút fyrir vitum en rakinn dregur í sig SO2 agnir. Klútur/rykgríma vætt  í matarsódalausn, eins og lýst er hér að ofan, er enn betri vörn en klútur sem eingöngu er bleyttur í vatni. Athugið að meira viðnám er í blautum klút/blautri grímu sem gerir innöndun erfiðari.  Rykgrímur duga lengur en klútur.  Þetta ráð á aðeins við útivist í stuttan tíma (10-15 mín.) og á ekki við um atvinnutengda starfsemi, en við þetta gildi er öll vinna utan dyra stöðvuð nema viðeigandi varnir séu notaðar og er þá fylgt ráðgjöf Vinnueftirlitsins (dæmi: störf vísindamanna í nágrenni virkra eldstöðva).

Vinnuverndarmörk

 Fari styrkur SO2 yfir mengunarmörkin 1.300 µg/m3 að meðaltali yfir 8 klst. tímabil skal stytta vinnutímann í hlutfalli við styrk mengunarinnar eða starfsmenn noti viðeigandi gasgrímur og gasmæla. Fari styrkur SO2 yfir mengunarmörkin 2.600 µg/m3 að meðaltali á 15 mín. tímabili skal vinnu hætt eða starfsmenn noti viðeigandi gasgrímu og beri gasmæli . Sjá nánar á vef Vinnueftirlitsins

Litakóði á síðu Umhverfisstofnunar

 Á vef Umhverfisstofnunar, loftgæði.is, eru birtir litakóðar fyrir ýmis loftmengunarefni. Hver litur gefur til kynna möguleg heilsufarsáhrif hjá bæði heilbrigðum einstaklingum og viðkvæmum hópum, svo sem börnum og fólki með undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdóma. 

 
Litakóðarnir styðjast við mörk í íslenskum reglugerðum. Heilsuverndarmörk fyrir klukkustundarmeðaltal á styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í  andrúmsloftinu eru 350 µg/m3. Litakóðinn fer því á rautt fari styrkur SO2 yfir 350 µg/m3. Litakóðarnir miðast almennt við langvarandi útiveru og ekki eru ráðlagðar takmarkanir á útiveru viðkvæmra hópa í þessum litakóðum fyrr en komið er á rautt. Sem dæmi má nefna að mengun vegna brennisteinsdíoxíðs fer á appelsínugult þegar styrkur SO2 er milli 200-350 µg/m3. Á þessu styrkbili er ekki gert ráð fyrir takmörkunum á útisvist en sagt frá því að viðkvæmir einstaklingar geti fundið fyrir einkennum við þann styrk.
 
Þessir almennu litakóðar gera ekki greinarmun á loftmengun sem er rétt yfir heilsuverndarmörkum eða margfalt yfir heilsuverndarmörkum. Þannig gerir þessi almenni litakóði engan mun á ráðleggingum hvort sem styrkur SO2 er 350, 3.500 eða 35.000 µg/m3. Því hefur verið útbúin meðfylgjandi tafla sem gefur upplýsingar um viðbrögð við mengun meðan eldgos stendur yfir.
 
Sóttvarnalæknir, Umhverfisstofnun, Vinnueftirlitið og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Mynd: Björn Oddsson. Táknmynd af eldgosi frá FreePik á FlatIcon.