Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi fyrir Arnarlax ehf. í Arnarfirði vegna sjókvíaeldis.

Rekstaraðili sótti um breytingu á starfsleyfi þann 9. janúar 2020 sem fól í sér styttingu á hvíldartíma. Gildandi starfsleyfi gerir ráð fyrir hvíldartíma allt að 6-8 mánuði og var það sá tími sem gerð var grein fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Breytingin gerir ráð fyrir að hvíldartími sé að lágmarki 90 dagar nema að vöktun og rannsóknir eldissvæðisins við hámarks álag gefi til kynna að hvíla þurfi lengur. 

Skipulagsstofnun mat það svo með ákvörðun þann 11.desember 2019 að breytingin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Var það mat stofnunarinnar eftir að hafa kallað eftir umsögnum frá Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun.
Umhverfisstofnun gerði þá kröfu á rekstraaðila að til að hægt væri að fara í slíka styttingu þyrfti að liggja fyrir ítarleg rannsókn á eldissvæði við lok slátrunar og lögð yrði fram áætlun ef hvíla þyrfti lengur en lágmarks hvíld segir til um. Rekstaraðili lagði fram viðbragðsáætlun þar sem tilgreind eru eldissvæði sem mögulegt verður að nota í stað eldissvæða sem uppfylla ekki skilyrði um ástand botns. Endanleg útfærsla á viðbragðsáætlun rekstraraðila er því sú að ákvörðun um útsetningu verður tekin eftir að niðurstöður úr botnsýnarannsókn, sem framkvæmd er þegar lífmassi er í hámarki, berast. Reynist ástand botns við hámarkslífmassa mjög gott eða gott mun rekstaraðili geta sett seiði út að nýju á eldissvæði eftir 90 daga hvíldartíma. Reynist ástand hvorki mjög gott né gott verður tekin ákvörðun um aðgerðir í samráði við Umhverfisstofnun. 

Umhverfisstofnun metur það svo að áhrif af breyttum hvíldartíma muni fyrst og fremst felast í auknu álagi á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum sem og mögulega aukinni hættu á að fisksjúkdómar og sníkjudýr nái fótfestu í eldiskvíum með mögulegum áhrifum á villta laxfiska í nágrenni fiskeldis. Er það mat stofnunarinnar að sú vöktun og þær aðgerðir sem rekstraraðili muni fara í komi breyttur hvíldartími ekki til með að valda verulegum óafturkræfum umhverfisáhrifum.

Tillaga að breytingunni felur einnig í sér uppfærslu á tilvísunum í lög og reglugerðir ásamt lagfæringum til samræmis við nýrri starfsleyfi sem gefin eru út af Umhverfisstofnun. Breytingar aðar en uppfærsla á tilvísunum í lög og reglugerðir frá gildandi starfsleyfi eru settar í hornklofa. Ekki er um að ræða breytingu á umfangi eldisins.

Umhverfisstofnun kallar eftir athugasemdum við breytinguna og skulu þær vera skriflegar og sendar til Umhverfisstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 13. júlí 2020. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:

Umsókn um breytingu á starfsleyfi
Tillaga að breytingu á starfsleyfi Arnarlax ehf í Arnarfirði
Ákvörðun um matsskyldu - Skipulagsstofnun
Vöktunaráætlun
Viðbragðsáætlun vegna vöktunar
Viðbragðsáætlun vegna botnsýnatöku