Stök frétt

Við viljum minna veiðimenn á að skilafrestur á veiðiskýrslum er til 1. apríl. Eftir þann tíma leggjast 1.500 krónur ofan á gjaldið. Aldrei hefur verið einfaldara að skila inn veiðiskýrslu og endurnýja veiðikort og eru flestir veiðimenn farnir að afgreiða sig sjálfir. Það eina sem menn þurfa að gera er að:

1. Fara á www.ust.is/veidimenn
2. Skrá sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum
3. Skila inn veiðiskýrslu
4. Ganga frá greiðslu

Þeir veiðimenn sem ganga frá greiðslu með debet- eða kreditkorti fá rafrænt eintak af veiðikortinu sent um hæl. Veiðimenn hafa tekið rafræna veiðikortinu fagnandi og þannig lagt sitt af mörkum við að sporna gegn plastsnotkun. Í könnun árið 2015 sögðust 67% veiðimanna vilja fá plastveiðikort sent heim. Raunin varð hinsvegar sú, að árið 2016 báðu aðeins 42% veiðimanna um plastkort. Sú tala var svo komin niður í 35% árið 2019 og verður það að teljast góð þróun.
En með rafrænum skilum á veiðiskýrslum hafa veiðimenn einnig stuðlað að gríðarlegum sparnaði á pappír og annari umsýslu. Árið 2000 voru sendar út 16.000 skýrslur til veiðimanna en sú tala var komin niður 481 skýrslu í ár (sjá mynd). Þetta ber vott um að veiðimenn láta ekki sitt eftir liggja þegar kemur að umhverfismálum og góð áminning um að enn er hægt að gera betur þegar kemur að plastkortunum. Við viljum því hvetja alla veiðimenn til að nýta tæknina og afþakka plastið.

Mynd: Árangur í umhverfismálum - Bjarni Pálsson starfsmaður Umhverfisstofnunar með stafla af veiðiskýrslum í póst árið 2000 (til vinstri) og árið 2020