Stök frétt

Vefurinn namur.is var opnaður á degi Jarðar árið 2013 sem er haldinn hátíðlegur 22. apríl ár hvert. Á vefnum er fjallað um allt sem varðar efnistöku, undirbúning, vinnslu og frágang. Vefurinn er uppfærður árlega m.t.t. breytinga á lögum og reglugerðum. Uppgræðslukafli vefsins hefur nú verið endurskoðaður og miklu efni og myndum verið bætt við um uppgræðslu með staðargróðri.

Vefurinn er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Vegagerðarinnar og Umhverfisstofnunar. Auk þeirra tekur fjöldi aðila þátt í gerð og endurskoðun efnis fyrir vefinn. Landbúnaðarháskólinn og Orka náttúrunnar lögðu fram mikið efni við endurskoðun uppgræðslukaflans.

Vefurinn er annars vegar ætlaður verktökum og öðrum þeim sem þurfa að nema efni til framkvæmda. Hins vegar sveitarstjórnum og öðrum sem koma að leyfisveitingum vegna efnistöku.

Fjallað er um efnistöku á landi, þ.e. landi í einkaeign, á ríkisjörðum og á þjóðlendum, auk efnistöku úr sjó. Farið er yfir hvernig staðið skuli að vali, skipulagningu og frágangi námusvæða. Markmið vefsins er að stuðla að skilvirkni í þessum málaflokki og bættri umgengni við umhverfið með samræmingu vinnubragða og yfirliti á einum stað um lög og reglugerðir tengt efnistöku.

Bæði Vegagerðin og Landsvirkjun vinna samkvæmt umhverfisstefnu þessara stofnana í sátt við lífríki og náttúru og hafa átt gott samstarf við Umhverfisstofnun. Vefurinn er ein afurð þeirrar stefnu.

Sjá namur.is.