Stök frétt

Parísarsamningurinn var fullgilltur af Alþingi 19. september 2016. Samningurinn er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC). Markmið samningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar, en jafnframt skuli leitast við að halda hækkuninni undir 1,5°C.

Samkvæmt samningnum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar telja að skuldbindingar Íslands og Noregs muni í stórum dráttum fara eftir þeim reglum og viðmiðum sem er að finna í tillögum ESB. Þegar kemur að skuldbindingum Íslands um að draga úr losun frá uppsprettum sem ekki falla undir viðskiptakerfi ESB, er líklegt að krafa á Íslandi verði á bilinu 35%-40%, til ársins 2030, miðað við losun 2005, að mati Vöndu Úlfrúnar L. Hellsing, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun.

Ef heildarlosun Íslands, sem fellur undir Parísarsamninginn, er skoðuð eftir því hvort hún falli undir viðskiptakerfi ESB (ESB markmið um 43% samdrátt m.v. 2005) eða komi frá öðrum uppprettum (ESB markmið um 30% m.v. 2005) sést að um það bil 40% af losun Íslands kemur frá rekstraðilum er falla undir viðskiptakerfið.

Sú losun er myndi falla undir sameiginleg markmið Íslands með ESB og Noregi hefur dregist saman um 7% síðan 2005 en líklegt er að það verði krafa á Íslandi um að draga úr um 35%-40% miðað við 2005. Megin uppspretta þeirrar losunar er frá orkugeiranum (tæplega 60%), sem er að stærstum hluta losun frá bruna á eldsneyti vegna t.d. vegasamgangna og fiskiskipa. Landbúnaðurinn er næst stærsti flokkurinn og er uppspretta um tæplega 27% þeirrar losunar sem ekki fellur undir viðskiptakerfið.

Sjá nánar http://ust.is/einstaklingar/loftslagsbreytingar/parisarsamningurinn/