Stök frétt

Föstudaginn og laugardaginn, 9. – 10. september síðastliðinn var haldin umhverfissýningin Saman gegn sóun í Perlunni. Fyrirtæki og opinberir aðilar kynntu þar nýjar leiðir í umhverfismálum og hvernig megi draga úr sóun. Sýningin var opin almenningi og var aðsókn mjög góð. Greinilegt er að vakning er í samfélaginu fyrir umhverfismálum og mikill vilji til að gera betur.

Sýningarbás Umhverfisstofnunar vakti mikla athygli. Áhersla var lögð á að sýna hversu mikil sóun á sér stað og hvernig megi minnka þessa sóun. Í samræmi við stefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytis um úrgangsforvarnir, þá var sérstök áhersla lögð á sóun matvæla, plasts og textíls. Einnig var vakin athygli á viðurkenndum umhverfismerkjum.  Í samvinnu við Umhverfisstofnun voru frjálsu félagasamtökin Landvernd, Rauði krossinn, Blái herinn og Kvenfélagasamband Íslands einnig með bása á sýningunni.

Fróðleiksmolar

Vissirðu að:

  • Leggja á bann við að afhenda burðarplastpoka ókeypis frá 1. janúar 2019?
  • Hver Íslendingur hendir um 10 kg af fötum á ári og gefur 7 kg á ári til Rauða krossins?
  • Það er munur á ”síðasti notkunardagur” og “best fyrir” dagsetningum? Vörur merktar ”best fyrir” duga yfirleitt mun lengur en uppgefin dagsetning.
  • Meðal Íslendingur hendur um 62 kg af mat á ári?
  • Svanurinn og Evrópublómið eru algengustu umhverfismerkin á Íslandi?