Stök frétt

Umhverfisstofnun á Patreksfirði fékk viðurkenningu Grænna skrefa frá Umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að uppfylla 4 græn skref af 5 í vistvænum ríkisrekstri. Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna sinna og draga úr rekstrarkostnaði. Einnig er markmiðið að hvetja aðra í samfélaginu til að vera okkur samstíga í átt að vistvænna og grænna samfélagi. 

Starfsstöð Umhverfisstofnunar í Reykjavík er fyrsta stofnunin til að uppfylla öll 5 skrefin og starfstöðin á Patreksfirði er sú fyrsta sem uppfyllir öll 4 skrefin. Umhverfisstofnun á Patreksfirði er með aðsetur í Skor Þekkingarsetri. Þar eru fimm aðrar stofnanir með starfsemi, Matís, Verkís, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Framhaldsdeild Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Allir starfsmenn og nemendur í Þekkingarsetrinu þurftu að taka þátt í verkefninu til að hægt væri að uppfylla öll 4 skrefin. Það má því segja að viðurkenning Grænna skrefa til Umhverfisstofnunar sé afrakstur samstarfs allra í Skor Þekkingarsetri. Því var fagnað með kræsingum og einnig voru gerð áætlun um næstu skref og hvernig því fimmta skuli náð. 

 Nánari upplýsingar um Græn skref í ríkisrekstri.

 

Nemendur framhaldsdeildar Fjölbrautaskóla Snæfellinga