Stök frétt

Höfundur myndar: Alexander Hafemann

Umhverfisstofnun evrópu heldur myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk. Deildu með okkur sýn þinni á sjálfbæra framtíð og þú getur unnið peningaverðlaun.

Hvernig sérðu fyrir þér sjálfbæran lífsstíl eftir 20 ár? Samkeppnin „´92 kynslóðin“ er tækifæri fyrir unga Evrópubúa sem fæddir eru á árunum 1991, 1992 og 1993 til þess að búa til myndband sem sýnir hugmyndir þeirra um sjálfbæra framtíð. Vinningshöfunum verður boðið til Kaupmannahafnar til þess að taka þátt í samkomu um sjálfbæra þróun þann 5. júní 2012. Bestu tillögurnar munu einnig hljóta peningaverðlaun, en heildarupphæð vinninga er 6.000 evrur eða rétt tæplega milljón íslenskra króna. Hægt er að senda inn myndbönd á tímabilinu 1. mars til 2. apríl.

Fyrir tuttugu árum síðan var fyrsti leiðtogafundur heimsins í umhverfismálum haldinn í Ríó í Brasilíu. Ríó-ráðstefnan varð sögulegur viðburður sem leiddi  til fjölmargra alþjóðlegra samninga á sviði umhverfismála. Í júní á þessu ári munu leiðtogar heimsins hittast aftur og vonandi mun fundurinn í ár  einnig leiða til tímamóta í því að bæta umhverfið. 

Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) leitar að ungu fólki með ferskar hugmyndir um það hvernig við leysum helstu umhverfisvandamálin. Þátttakendur eiga að vera fæddir um svipað leiti og Rió-leiðtogafundurinn var haldinn þ.e. vera um það bil 20 ára (fæddir 1991, 1992 eða 1993), vera ríkisborgarar í ríkjum sem eru aðilar að Umhverfisstofnun Evrópu og samstarfsríkjum stofnunarinnar  eða frá Grænlandi og hafa brennandi áhuga á umhverfismálum. Nánari upplýsingar um innsendingu myndbanda er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu og þær verða uppfærðar á næstu vikum.

Lengd myndbandanna má að vera frá 30 sekúndum upp í tvær mínútur og eiga að endurspegla sýn þátttakandans á sjálfbæran lífsstíl. Þátttakendurnir vilja e.t.v. taka fyrir helstu umhverfisvandamál síns lands og þeirra sýn á hvernig eigi að leysa þau. Önnur nálgun gæti verið að taka fyrir hvernig þeirra kynslóð gæti orðið í fararbroddi í að breyta Evrópu og taka upp sjálfbærari lífsmáta.

Þátttakendur eru hvattir til þess að fara eigin leiðir – t.d. geta þátttakendurnir beitt blaðamennsku eða skáldskap, verið með lifandi upptökur eða teiknimyndir, tekið viðtöl eða sýnt myndir. Ef myndböndin eru á öðru tungumáli en ensku þarf myndbandið að vera með texta á ensku.

Einnig verður kosið um vinsælasta myndbandið meðal almennings - svokölluð Buzz verðlaun. Hægt verður að kjósa milli allra myndbanda sem komast í úrslit (20 myndbönd) og þau birt á félagsmiðlum.

Verðlaun

  1. verðlaun eru 3000 evrur
  2. verðlaun eru 2000 evrur
  3. verðlaun eru 1000 evrur

Vinsælasta myndbandið fær viðurkenningarskjal.

Í dómnefnd munu sitja fjölmiðla- og margmiðlunarsérfræðingar. Þeir munu leita eftir frumlegustu hugmyndunum og skapandi framsetningu.  

Vinningshafarnir fjórir ferðast svo til Umhverfisstofnunar Evrópu í Kaupmannahöfn, þar sem þeir munu veita verðlaununum viðtöku við formlega athöfn þann 5. júní 2012.

Nánari upplýsingar varðandi „92 kynslóðina“ – Myndbandasamkeppni ungs fólks í Evrópu.