Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir Laxa fiskeldi ehf. til að stunda laxeldi í Reyðarfirði. Tillagan gerir ráð fyrir heimild til rekstraraðila til að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi á ári í sjókvíum á tilgreindum stöðum í firðinum. Laxar fiskeldi ehf. er einkahlutafélag sem áformar að byggja upp áframeldi á laxi í sjókvíum á Austfjörðum.

Skipulagsstofnun úrskurðaði þann 8. júlí 2011 að framleiðslan sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Sérstök greinargerð hefur verið unnin vegna auglýsingarinnar þar sem farið er yfir ýmis sértæk atriði sem varða auglýsingu á þessari starfsleyfistillögu. Í greinargerðinni kemur fram að Umhverfisstofnun hefur aflað gagna um svæðin þar sem gert er ráð fyrir að eldið verði staðsett. Það var gert með því að leitað var álits Heilbrigðisnefndar Austurlands og Orkustofnunar um hvort upplýsingar liggi fyrir hjá stofnununum um nýtingu svæða sem gæti stangast á við þá starfsemi sem hér um ræðir á þeim svæðum sem tilgreind eru í starfsleyfistillögunni. Má segja að þau mál hafi nokkuð skýrst í ferlinu. Einnig var óskað eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) um þau drög að starfsleyfistillögu sem voru í vinnslu.
Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Fjarðabyggðar, Hafnargötu 2, Reyðarfirði, á tímabilinu 21. október til 16. desember 2011.

Starfsleyfistillögu ásamt umsóknargögnum, áðurnefndri greinargerð Umhverfisstofnunar, umsögnum og öðrum gögnum má sjá hér að neðan. Öllum er frjálst að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna en þær skulu vera skriflegar, undirritaðar með nafni og heimilisfangi og sendar Umhverfisstofnun.

Kynningarfundur verður haldinn fimmtudaginn 3. nóvember klukkan 17 á Fjarðarhóteli, Reyðarfirði. 

Frestur til að skila athugasemdum er til 16. desember 2011.

 

Gögn

i.     Tillaga Umhverfisstofnunar að starfsleyfi
ii.    Umsókn um starfsleyfi
iii.   Umsókn um starfsleyfi, viðbótargögn
iv.   Tilkynning til Skipulagsstofnunar vegna matsskyldu
v.    Ákvörðun Skipulagsstofnunar
vi.   Umsögn frá Orkustofnun að beiðni Umhverfisstofnunar
vii.  Umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands að beiðni Umhverfisstofnunar
viii. Greinargerð Umhverfisstofnunar með auglýstri tillögu