Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð Íslandsbleikju ehf. á Stóru-Vatnsleysu, Vogum á Vatnsleysuströnd. Í starfsleyfinu er heimilað að framleiða allt að 1.600 tonn samanlagt á ári af bleikju, laxi og silungi þar til fullvöxnum fiski er slátrað. Starfsleyfið er til áframhaldandi reksturs fiskeldisstöðvarinnar þar sem að gildistími fyrra starfsleyfis var runninn út en rekstraraðili sótti ekki um neinar breytingar á heimildum starfsleyfisins að þessu sinni.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi opinberlega á tímabilinu á tímabilinu 25. nóvember 2010 til 20. janúar 2011 og lá hún frammi á skrifstofu sveitarfélagsins Voga á sama tíma. Tillagan var auk opinberrar auglýsingar, sérstaklega send til umsagnar hjá Íslandsbleikju ehf., sveitarfélaginu Vogum, Fiskistofu og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.

Engar umsagnir bárust um tillöguna. Þó voru gerðar breytingar frá auglýstri tillögu sem miða að frekara samræmi við nýleg starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir aðra starfsemi eins og nánar gerð grein fyrir í greinargerð hér að neðan.

Starfsleyfið er veitt í samræmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það öðlast þegar gildi og gildir til 31. mars 2027.

Skjöl