Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Alcoa Fjarðaál sf. þar sem rekstraraðila er heimilt að framleiða allt að 360.000 tonn af áli á ári í kerskálum álversins, auk tiltekinnar tengdrar starfsemi. Umsóknin er upphaflega til komin vegna þess að framleiðsla eykst umfram áætlanir hjá rekstraraðila með straumhækkun og hagræðingu án þess þó að nein ný mannvirki verði reist vegna þess.

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 19. ágúst til 14. október 2010. Tillagan var sérstaklega send til umsagnar hjá Vinnueftirlitinu, Skipulagsstofnun, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Fjarðabyggð, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, auk Alcoa Fjarðaáls sf. Þá lá tillagan frammi á ofangreindum tíma á skrifstofu Fjarðabyggðar ásamt umsóknargögnum auk þess sem hún var aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Auk þess var haldinn opinn kynningarfundur 8. september s.l. eins og áður hefur komið fram á heimasíðu stofnunarinnar.

Umsagnir og fyrirspurnir bárust frá fimm aðilum og vörðuðu þær margvísleg mál, svo sem aðdraganda málsins, verkaskiptingu eftirlitsaðila og losun brennisteinssambanda. Tekin voru upp ný losunarmörk í starfsleyfið, annars vegar fyrir heildarmagn losunar á brennisteinssamböndum og hins vegar sérstök losunarmörk fyrir losun brennisteinsdíoxíðs úr súráli. Þetta eru lítillega hert ákvæði frá þeim sem voru í starfsleyfistillögunni og þessar breytingar voru gerðar vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma. Í fyrri starfsleyfum álvera hefur eingöngu verið gengið út frá losun brennisteinsdíoxíðs úr forskautum.

Starfsleyfi þetta er veitt í samræmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það öðlast þegar gildi og gildir til 1. desember 2026. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi eldra starfsleyfi álversins frá 25. janúar 2007.