Stök frétt

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) metur nýja rannsókn á aspartam og staðfestir örugga notkun efnisins.

Vísindanefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu sem fjallar um aukefni, bragðefni, hjálparefni og efni og hluti í snertingu við matvæli var falið að leggja mat sitt á nýja langtíma rannsókn, sem benti til þess að neysla á aspartam gæti leitt til krabbameins. Rannsókninni var stjórnað af Ramazzini stofnunni í Bologna á Ítalíu (European Ramazzini Foundation) og niðurstöður birtar árið 2005.

Aspartam, sem er gervisætuefni hefur verið leyft í yfir 20 ár víða um heim bæði til matvælavinnslu og sem strásæta. Undanfarna áratugi hafa verið gerðar viðamiklar rannsóknir á efninu og niðurbrotsefnum þess í líkamanum. Vísindanefnd EFSA (Scientific Committee on Food) lagði síðast mat á allar þessar rannsóknir árið 2002 og sendi þá frá sér það álit að efnið væri öruggt til neyslu.

Þegar niðurstaða úr tilraun vísindamannanna Ramazzini stofnunarinnar gaf til kynna að neysla efnisins gæti valdið krabbameini og bent hafði verið á að endurskoða þyrfti daglegt neyslugildi var áðurnefndri nefnd sem m.a. fjallar um aukefni strax falið að fara yfir rannsóknargögnin og meta þau. Vísindanefndin fékk til liðs við sig fjölmarga óháða sérfræðinga með víðtæka þekkingu og áralanga reynslu af áhættumati og skoðaði jafnframt aðrar nýjar rannsóknir á aspartam, s.s. nýlega faraldsfræðilega rannsókn Krabbameinsstofnunar Bandaríkjanna (US National Cancer Institute).

Nú hefur vísindanefndin skilað af sér og í niðurstöðum hennar kemur m.a. fram að í rannsókninni hafi ekki verið fylgni milli stæðar skammta af aspartami og tíðni krabbameins, að sumar tegundir krabbameinanna megi eins rekja til annarra efna og að greining sumra krabbameinanna hafi jafnvel verið óljós. Niðurstaða vísindanefndarinnar er sú ,að teknu tilliti til allra tiltækra upplýsinga, að hvorki sé ástæða til að endurmeta örugga notkun aspartams né að breyta daglegu neyslugildi* (Acceptable Daily Intake, ADI) þess. Daglegt neyslugildi aspartams er 40 mg fyrir hvert kíló líkamsþunga. Auk þess greindi nefndin frá því að víða í Evrópu er neysla á aspartam allt að 10 mg/kg líkamsþunga sem er langt innan við hámarksgildið.

Hér er hægt er að nálgast skýrslu vísindanefndarinnar.


*Daglegt neyslugildi er skilgreint sem það magn aukefnis, sem fólk á að geta neytt daglega alla ævi án hættu á skaðlegum áhrifum (ofnæmi er undanskilið).