Urriðakotshraun

Urriðakotshraun var friðlýst sem fólkvangur þann 10. janúar 2024 að beiðni landeiganda og Garðabæjar. 

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann snemma á nútíma fyrir um 8100 árum. Hraunið er svokallað klumpahraun og er jaðar þess uppbelgdur og úfinn. Í hrauninu eru sveigðir hryggir á yfirborði og úfnir hraukar við jaðrana. Nokkuð er um hraunhella og kallast þeir Selgjárhellar og Maríuhellar. Heitir hraunið Smyrlabúðarhraun við Selgjá og frá Selgjá að Maríuhellum heitir hraunið Urriðakotshraun. Býr svæðið yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og í því felast miklir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu. Innan svæðisins liggja m.a. göngu- og reiðstígar. 

Markmið friðlýsingarinnar sem fólkvangs er að tryggja aðgengi almennings að náttúru svæðisins til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins. 

Fólkvangurinn er 1,05km2. Aðliggjandi svæðinu að sunnanverðu er náttúruvættið Búrfell, Búfellsgjá og Selgjá og að norðanverðu er fólkvangur í Maríuhellum.

Tengd skjöl
Auglýsing um fólkvang í Urriðakotshrauni ásamt korti