Umhverfistofnun - Logo

Þvotta- og hreinsivörur

Allt í kringum okkur eru efni sem koma góðum notum í okkar daglega lífi, bæði í efnablöndum og hlutum. Sum innihaldsefni geta þó verið varasöm og skaðleg heilsu manna og umhverfis. Þess vegna er það besta sem við getum gert að draga úr notkun efna. Oft erum við bara að nota efni af vana en ekki vegna þess að þau eru nauðsynleg.

Við þurfum líka alltaf að hafa í huga að öll efni sem við notum við sturtur, vaska og þvottavélar, enda í frárennsli (sápur, sjampó, hreinsiefni, þvottaefni, tjöruhreinsir, málning af penslum sem við skolum) og þaðan ómeðhöndlað beint út í sjó. Þess vegna er mikilvægt að hafa alltaf í huga hvaða efni við erum að nota, kaupa frekar umhverfisvottuð efni eða einfaldlega sleppa efnum þar sem hægt er. Það er bæði gott fyrir umhverfið og sparar pening.

Mörg þvotta- og hreinsiefni geta verið ertandi og jafnvel ætandi, eins og t.d. efni notuð í uppþvotta- og þvottavélar auk ýmissa sértækra hreinsiefna. Hreingerning með hreinsiefnum skilur alltaf eftir efnaleifar í umhverfinu og eru smábörn sérstaklega berskjölduð fyrir þessum leifum þegar þau skríða um á gólfinu. Því minna sem notað er af hreinsiefnum því minna fá börnin í sig af þessum efnum. 

Góð leið til að minnka áhrif hreinsiefna á heimilum er einfaldlega að nota minni skammta. Hægt er að prófa sig áfram með því að minnka skammtinn hægt og rólega og halda sig við þann minnsta skammt sem gefur góðan árangur. Á Íslandi er vatnið steinefnasnautt (mjúkt) en minna þvottaefni þarf í slíkt vatn heldur en í steinefnaríkt (hart) vatn. Reynslan hefur sýnt að fólki hættir til að  nota allt of stóra þvottaefnaskammta.

Nokkur góð ráð

  • Drögum almennt úr allri notkun á efnum
  • Búum til eigin efni úr einföldum hráefnum svo sem matarsóda, sítrónu, ediki og öðru. Uppskriftir eru margar og víða hægt að finna á netinu.
  • Drögum úr umbúðanotkun með því að kaupa þvotta- og hreinsiefni í stærri umbúðum og svo er hægt að fylla á minni umbúðir
  • Veljum umhverfisvottaðar vörur s.s. Svaninn eða Evrópublómið en við framleiðslu þeirra er tekið tillit til bæði heilsu og umhverfis. Vörurnar innihalda lágmarksmagn af efnum og við framleiðslu þeirra er losun á hættulegum efnum og gróðurhúsaloftegundum haldið niðri.