Umhverfistofnun - Logo

Meðhöndlaðar vörur

Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að framleiðendur láti bæta efnum í vörur til að gefa þeim ákveðna eiginleika, svo sem til að lengja líftíma þeirra, koma í veg fyrir að af þeim stafi vond lykt, draga úr niðurbroti  eða takmarka bakteríuvöxt.

Ef fullyrt er að vara hafi verið meðhöndluð til þess að ná fram ofangreindum áhrifum má gera ráð fyrir að bætt hafi verið í hana efnum með sæfandi eiginleikum. Með sæfandi eiginleikum er átt við að efnið sem um ræðir drepi, eyði, fæli frá sér eða laði að sér lifandi skaðvalda eins og bakteríur, þörunga, sveppi eða meindýr en vörur sem innihalda slík efni eru kallaðar sæfivörur. Dæmi um vörur sem eru gjarnan meðhöndlaðar með sæfivörum eru húsgögn, sem eru meðhöndluð með skordýraeitri eða rotvarnarefnum til að koma í veg fyrir að skordýr, mygla eða sveppur nái að komast í þau við flutning, og hreingerningaklútar, hlaupaskór og íþróttaföt, sem eru meðhöndluð með sótthreinsivörum til að halda bakteríufríum og koma þannig í veg fyrir vonda lykt.

Það er líklegt að varan þín hafi verið meðhöndluð með sæfivörum ef þú sérð eftirfarandi hugtök koma fram á merkingum hennar:

  • bakteríudrepandi (antibacterial)
  • bakteríuhemjandi (bacteriostatic)
  • myglueyðandi (anti-mould)
  • mygluhemjandi (mould-repellent)
  • lyktarlaus (odourless)
  • vinnur gegn ólykt (anti-odour)

Meðhöndlun vara með sæfivörum er í mörgum tilvikum óþarfi og gerir það að verkum að neytendur eru í beinni snertingu við efni, sem getur til lengri tíma verið skaðlegt heilsunni. Einnig er vafi á því hversu lengi slík meðhöndlun hefur áhrif á vöruna, t.d. hversu marga þvotta þurfi til að bakteríudrepandi efnið skolist úr íþróttabol. Þessi efni losna því á endanum út í umhverfið en óhófleg og röng notkun á sótthreinsivörum getur valdið því að í umhverfi okkar verði til ónæmar bakteríur, sem er stækkandi vandamál í heiminum í dag.

Þess vegna er mikilvægt að þú sem neytandi vandir valið við kaup á vörum og hafir í huga hvort að vandamálið geti verið leyst án þess að nota meðhöndlaðar vörur. Vertu vakandi fyrir hugtökunum hér að ofan og veldu vörur sem merktar eru með Svansmerkinu eða Evrópublóminu, þegar það er í boði.