Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir SORPU bs. til meðhöndlunar á úrgangi í Álfsnesi. Umfang starfseminnar skiptist samkvæmt tillögunni í urðun á allt að 120 þúsund tonnum af úrgangi á ári, reksturs á hreinsistöð fyrir hauggas, heimildar til tilrauna með endurnýtingu flokkaðs úrgangs og til geymslu á úrgangi er nýttur er við reksturinn eða bíður endurnýtingar.

SORPA bs. hafði áður sambærilegt starfsleyfi, gefið út 21. ágúst 2014, er úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála felldi úr gildi að hluta með úrskurði sínum þann 23. febrúar 2017. Fram kom í úrskurðinum að þar sem fram hafi komið í eigendasamkomulagi byggðasamlagsins, er vísað er til í aðalskipulagi, að urðun skuli hætt í Álfsnesi innan fjögurra til fimm ára frá undirritun samkomulagsins í október 2013. Því hafi Umhverfisstofnun ekki verið heimilt að veita leyfi til urðunar lengur en til október 2018. Því felldi úrskurðarnefndin urðunarhluta starfsleyfisins úr gildi.


Síðan hefur yfirlýsing eigenda SORPU bs., sem eru aðilar eigendasamkomulagsins, verið undirrituð en þar kemur fram að aðilar samkomulagsins staðfesta að túlka verði samkomulagið með þeim hætti að urðun verði hætt í Álfsnesi í seinasta lagi í lok desember 2020. Umhverfisstofnun auglýsir því tillögu að starfsleyfi, efnislega sambærilega fyrra starfsleyfi, með heimild til urðunar út árið 2020.

Eins og segir er tillagan nokkuð samhljóðandi fyrra starfsleyfi en helsti munurinn liggur í því að í tillögunni eru útlistaðar takmarkanir þær er innleiddar voru með a lið 1. gr. reglugerðar nr. 674/2017 á urðun aukaafurða dýra.

Tillagan ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 5. apríl 2019 til og með 6. maí 2019 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 6. maí 2019.

Tengd skjöl:
Tillaga að starfsleyfi
Starfsleyfisumsókn
Tengill á úrskurð úrskurðarnefndarinnar
Yfirlýsing vegna eigendasamkomulags